Raskanir á flugi Icelandair vegna veðurs

Tekin hefur verið ákvörðun að aflýsa alls 24 brottförum til og frá Evrópu á morgun vegna slæmrar veðurspár. Einnig er búið að taka ákvörðun um að seinka brottförum á flugi frá Bandaríkjunum til Íslands í kvöld. Nákvæm tímasetning brottfara mun liggja fyrir fljótlega, að því er Icelandair greinir frá í tilkynningu.

Aðrar brottfarir til og frá Evrópu eru enn sem komið er á áætlun þó að gera megi ráð fyrir seinkunum á þeim. Raskanir á flugi Icelandair næsta sólarhringinn hafa áhrif á ríflega 3.000 farþega, segir félagið. 

Vinna í að finna ný flug fyrir alla

 „Starfsfólk Icelandair er þessa stundina að upplýsa farþega um þessar breytingar á flugáætlun vegna veðurs. Það er mikið álag á þjónustuveri Icelandair vegna þessa en við biðjum farþega um að sýna okkur biðlund en við erum að vinna í að finna nýtt flug fyrir alla okkar farþega. Við gerum okkar allra besta að koma viðskiptavinum okkar á áfangastað eins fljótt og hægt er með öryggi allra í fyrirrúmi. Allir farþegar verða sjálfkrafa endurbókaðir og ný ferðaáætlun verður send á netfang þeirra. Það er ekki nauðsynlegt að hafa samband við okkur nema ef nýja ferðaáætlun hentar ekki,“ segir Ingibjörg Ásdís Ragnarsdóttir, forstöðumaður þjónustu og upplifunar hjá Icelandair, í tilkynningunni. 

Von á slæmu veðri

„Búist er við slæmu veðri næsta sólarhringinn og eru  farþegar beðnir um að fylgjast með upplýsingum frá Icelandair en það er ávallt hægt að fara inn á heimasíðu félagsins og fylgjast með á svæðinu „umsjón með bókun“. Þar eru flugupplýsingar uppfærðar um leið og breytingar liggja fyrir og þar geta farþegar jafnframt uppfært netföng og símanúmer þannig að hægt sé að koma skilaboðum til þeirra hratt og örugglega,“ segir hún ennfremur. 

Fram kemur á vef Veðurstofu Íslands, að gul viðvörun sé í gildi fyrir landið vestan- og sunnanvert. Við Faxlaflóa er spáð hvassviðri eða stormi með vindhraða á bilinu 18-23 m/s. Búast meg við talsverðum éljagangi með skafrenningi og lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Líkur séu á samgöngutruflunum og lokunum á vegum, einkum fjallvegum.

Veðurvefur mbl.is

Nú þegar er búið að aflýsa eftirfarandi flugferðum 23. janúar

Flug FI532/FI533 til og frá München
Flug FI568/FI569 til og frá Zürich
Flug FI520/FI521 til og frá Frankfurt
Flug FI554/FI555 til og frá Brussel
Flug FI430/FI431 til og frá Glasgow
Flug FI342/FI343 til og frá Helsinki
Flug FI306/FI307 til og frá Stokkhólmi
Flug FI318/FI319 til og frá Osló
Flug FI206/FI207 til og frá Kaupmannahöfn
Flug FI440/FI441til og frá Manchester
Flug FI416/FI417 til og frá Dublin
Flug FI 450/451 til og frá London Heathrow

Eftirfarandi flugferðir fara í seinkun:

Flug FI470/ FI471 til og frá London Gatwick
Flug FI500/FI501 til og frá Amsterdam
Flug FI542/FI543 til og frá París, Charles De Gaulle
Flug FI204/ FI205 til og frá Kaupmannahöfn

Nánari upplýsingar er að finna hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert