Til góðs að ræða hæfi ráðherra

Kristján Þór Júlí­us­son, sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra, sit­ur nú fyr­ir svör­um …
Kristján Þór Júlí­us­son, sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra, sit­ur nú fyr­ir svör­um á opn­um fundi stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar Alþing­is, ásamt Kristjáni Skarp­héðins­syni, ráðuneyt­is­stjóra at­vinnu­vega- og ný­sköp­un­ar­ráðuneyt­is­ins. mbl.is/Árni Sæberg

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, vonar að fundur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun hafi verið öllum til gagns. Efni fundarins var frum­kvæðis­at­hug­un á hæfi ráðherr­ans í ljósi stöðu hans gagn­vart Sam­herja. 

Fátt kom ráðherra á óvart á fundinum en hann segir að það sé ekki hans að svara hvort málinu sé lokið. „Ég hef svarað þeim spurningum sem að okkur hefur verið beint eftir bestu getu og þekkingu og það er ekkert mitt að segja til um það með hvaða hætti nefndin hyggst vinna að þeirri samþykkt sem hún gerði.“

Kristján Þór segir að hann og ráðuneytið hafi ávallt lýst því yfir að þau séu reiðubúin að taka þátt í umræðu um hæfi ráðherra. „Við gerum það glöð vegna þess að ég tel að það sé til góðs fyrir alla að umræða um hæfi og hæfisreglur sé hvort tveggja málefnaleg og uppbyggjandi.“

Náðu að „kristalla allan ágreining“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, segir fundinn hafa verið upplýsandi og að hann hafi „kristallað allan þann ágreining“ sem er á milli hennar og sjávarútvegsráðherra. Þá hafi ráðherra verið afar samstarfsfús á fundinum. 

„Mér fannst ánægjulegt að heyra að hann vilji halda áfram þessu samtali við nefndina og veita okkur allar þær upplýsingar sem við óskum eftir,“ segir Þórhildur Sunna og hyggst hún óska eftir frekari upplýsingum frá ráðuneytinu, byggðum á þeim svörum sem fengust á fundi nefndarinnar í dag. „Þær munu snúa sérstaklega að hagsmunamati sem ég ræddi við ráðherra um og um fleiri atriði sem eru inni á hans borði sem viðbrögð við Samherjamálinu.“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, …
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, segir ráðherra hafa verið samstarfsfúsan og að það hafi verið ánægjulegt að hann vilji halda áfram samtali við nefndina um hæfi ráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kom ekki fyrir nefndina til að svara kröfu um afsögn

Frá því Samherjamálið kom upp í nóvember hefur hópur fólks krafist þess að Kristján Þór segi af sér embætti. Aðspurður hvort frumkvæðisathugunin á hæfi ráðherra sem nú er til umfjöllunar hjá nefndinni sé svar við þeirri kröfu segir Kristján að hann hafi ekki komið fyrir nefndina til að svara einum hópi frekar en öðrum, heldur til að draga fram sjónarmið sín og ráðuneytisins er varða hæfi. 

„Varðandi málefni Samherja í Namibíu þá liggur það einfaldlega fyrir að ég hef ekki haft neina einustu aðkomu að því máli og vissi í raun ekki um nokkurn skapaðan hlut í því fyrr en fjölmiðlar fóru að fjalla um þetta. Ég hef sagt það að ég hef ekkert að fela í þessum efnum og verið boðinn og búinn að ræða þetta mál hvar og hvenær sem er.“

Frá opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun.
Frá opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert