Kveðst ekki hafa nein mannslíf á samviskunni

Reynir Traustason í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Við hlið hans …
Reynir Traustason í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Við hlið hans situr Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður hans. Standandi er Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Arnþrúðar Karlsdóttur. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er eins og að segja að morð hafi verið framið en síðan er ekkert lík. Þetta er úr lausu lofti gripið,“ sagði Reynir Traustason þegar aðalmeðferð í máli hans gegn Arnþrúði Karlsdóttur fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Reynir, sem er meðal annars fyrrverandi ritstjóri DV og stjórnarmaður Stundarinnar, sakar útvarpsstjóra Útvarps Sögu um ærumeiðandi ummæli. Hún sakaði Reyni um að hafa mörg mannslíf og hamingju fjölskyldna á samviskunni eftir áðurnefnd störf sín.

Reynir sagði að Arnþrúður hefði ekki fært nein rök fyrir máli sínu og að ummæli hennar, sem voru látin falla í þætti á Útvarpi Sögu 5. desember, væru uppspuni frá rótum. Reynir krefst þess að þrenn ummæli verði dæmd dauð og ómerk. Auk þess krefst hann 1,5 milljóna króna í miskabætur.

„Sjáðu bara eins og [...] stjórnarformann Stundarinnar, Reyni Traustason. Hvað heldurðu að hann hafi mörg mannslíf og fjölskylduhamingju á á samviskunni? Bæði frá því sem ritstjóri DV og ritstjóri Stundarinnar og þá stjórnarformaður Stundarinnar,“ eru ein þrennra ummæla sem Reynir krefst að verði dæmd dauð og ómerk.

Hefur lagt pennann á hilluna

Við aðalmeðferð málsins fór Reynir yfir 30 ára feril sinn í blaðamennsku en hann hefur nú lagt pennann á hilluna. Hann kvað sér ellefu sinnum hafa verið stefnt fyrir dóm fyrir störf sín sem blaðamaður og ritstjóri; þar sem tíu málum lauk með sýknu og Mannréttindadómstóll Evrópu dæmdi Reyni einu sinni bætur eftir dóm hér á landi.

„Ég, Jón Trausti sonur minn og Ingi Freyr, bróðir lögmanns, fengum bætur,“ sagði Reynir en Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Arnþrúðar í málinu, er bróðir Inga Freys Vilhjálmssonar, fyrrverandi kollega Reynis á DV og Stundinni.

Reynir ítrekaði að hann hefði engin mannslíf á samviskunni og að þeir þrír; hann, Jón Trausti eða Ingi Freyr hefðu ekkert slíkt á samviskunni.

„Það er reyndar siðaðra manna háttur að ef einhver er sýknaður er það ekki mál,“ sagði Reynir og bætti við að hann skildi ekki hvers vegna sýknumál væru til umræðu.

Reynir sagði að nokkrum sinnum hefði verið kvartað yfir störfum hans til Blaðamannafélags Íslands. Hann hefði hlotið blaðamannaverðlaun fyrir umfjöllun og nokkrar tilnefningar auk þess.

Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður Reynis, spurði hann út í greinargerð lögmanns Arnþrúðar þar sem kom meðal annars fram að Reynir hefði ítrekað látið þá sem honum líkaði illa við finna fyrir því.

Reynir sagði það ekki svo vera en benti á að eflaust þætti þeim sem skrifað væri um illa að sér vegið í einhverjum tilfellum. „Vilhjálmi lögmanni fannst það þegar fjallað var um ritgerðina hans,“ sagði Reynir og leit á lögmann Arnþrúðar.

Björn var daprari á síðum DV

Reynir var spurður út í meinta persónulega óvild hans í garð Björns Leifssonar, Bjössa í World Class. Reynir benti á að hann og Björn hefðu verið nágrannar á Flateyri á árum áður og að hann hefði samúð með Birni.

„Hann hefur lýst því yfir að hann hafi andúð á mér og hati mig,“ sagði Reynir. „Eins og ég þekki Björn er þetta ágætispiltur og ég hef ekkert á móti honum og ég hef ekki skrifað orð um að hann sé verri en annar. Björn var mikið brosandi á síðum Séð og heyrt en daprari á síðum DV.“

Aldrei skrifað falsfréttir

Reynir sagðist aldrei hafa skrifað fréttir sem hann vissi að væru ósannar. „Þetta er það sem blaðamaðurinn á eitt eftir á grafarbakkanum; að skrifa ekki falsfréttir. Þeir sem skrifa falsfréttir eiga ekki afturkvæmt í blaðamennsku,“ sagði Reynir og bætti því við að ummælin væru bein árás á heiður hans sem blaðamanns.

Spurður sagðist Reynir ekki hafa hugmynd um hvað Arnþrúði gekk til með því að fullyrða að hann hefði mannslíf á samviskunni. „Merkilegt að Arnþrúður mæti ekki sjálf í dóminn eftir að hún skoraði á mig að mæta,“ sagði Reynir en útvarpsstjóri Útvarps Sögu var hvergi sjáanleg.

„Það er alveg klárt að ég drap engan en það getur verið að ég hafi bjargað einhverjum,“ sagði Reynir.

Reynir ítrekaði að ummælin væru ekki fagleg og að Arnþrúður hefði aldrei bent á nein rök máli sínu til stuðnings. Ummæli lík þessum myndu ekki ganga í frétt á neinum fjölmiðli. „Þetta er ekkert annað en áburður sem gengur ekki á heilbrigðum fjölmiðli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert