Komið í veg fyrir að hægt sé að safna jörðum

Kaup kínverska auðmannsins Huang Nubo á meirihluta jarðarinnar Grímsstaða á …
Kaup kínverska auðmannsins Huang Nubo á meirihluta jarðarinnar Grímsstaða á Fjöllum voru mikið rædd fyrir tæpum áratug. Undirliggjandi markmið draga frumvarps um fasteignir og fleira, sem forsætisráðherra hefur kynnt í samráðsgátt stjórnvalda, er að hindra jarðasöfnun erlendra jafnt sem innlendra einstaklinga og fyrirtækja. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Undirliggjandi markmið draga frumvarps um fasteignir og fleira, sem forsætisráðherra hefur kynnt í samráðsgátt stjórnvalda, er að hindra jarðasöfnun erlendra jafnt sem innlendra einstaklinga og fyrirtækja. Fleiri markmið eru þó nefnd til sögunnar, eins og til dæmis að vernda land sem hentar til búvöruframleiðslu.

Nubo og Ratcliffe

Auðmenn hafa lengi safnað jörðum hér á landi, meðal annars við eftirsóttar laxveiðiár. Áhugi erlendra manna er nýrri. Kaup kínverska auðmannsins Huang Nubo á meirihluta jarðarinnar Grímsstaða á Fjöllum voru mikið rædd fyrir tæpum áratug. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra neitaði að veita félagi hans undanþágu til kaupanna, meðal annars með þeim rökum hversu stór jörðin er. Í kjölfarið var sett af stað vinna við að endurskoða lög um eignarrétt og afnotarétt fasteigna.

Næsta umræða snerist um kaup breska auðmannsins Jim Ratcliffe, sem í nafni ýmissa félaga hefur safnað að sér laxveiðijörðum í Vopnafirði og víðar á Norðausturlandi og fékk meðal annars að kaupa Grímsstaði á Fjöllum. Athugun Kveiks á RÚV á síðasta ári benti til þess að Ratcliffe ætti meirihluta í 30 jörðum og hlut í alls 39 jörðum. Áætlað var að jarðir sem Bretinn á hlut í næðu yfir nærri 1.400-1.500 ferkílómetra lands, eða um 1,4% landsins.

Grafík/mbl.is

Starfshópur sem landbúnaðarráðherra skipaði á árinu 2017 til að gera tillögur um úrræði til að viðhalda ræktanlegu landbúnaðarlandi og búsetu í sveitum landsins skilaði skýrslu 2018. Þótt hvorki vinna innanríkisráðherra né landbúnaðarráðherra hafi leitt til lagabreytinga er tekið mið af skýrslum þeirra við samningu þess frumvarps sem nú er áformað að leggja fram. Þá er frumvarpið liður í víðtækri heildarendurskoðun á lögum og reglum um eignarráð, ráðstöfun og nýtingu fasteigna, með áherslu á land.

Sú stefna stjórnvalda birtist í frumvarpinu að löggjöfin eigi að stuðla að fjölbreyttum og samkeppnishæfum landbúnaði, náttúruvernd, viðhaldi byggðar og um leið þjóðhagslega gagnlegri og sjálfbærri landnýtingu. Jafnframt er lögð áhersla á að tryggja að land sem er vel fallið til búvöruframleiðslu sé varðveitt til slíkra nota og að fæðuöryggi sé tryggt til framtíðar. Að sama skapi er sagt að ástæða sé til að sporna gegn kaupum eða söfnun á landi í spámennskuskyni. Tekið er fram að það eigi við án tillits til þjóðernis eiganda.

Með frumvarpinu eru stjórnvöld að óska eftir tækjum til að ná þessum markmiðum og fá yfirsýn um eignarráð lands, meðal annars þegar eignarréttur er á hendi lögaðila.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert