„Er þessi ríkisstjórn hætt störfum?“

Þorsteinn Víglundsson þingmaður Viðreisnar spurði hvort ríkisstjórnin hefði farið í …
Þorsteinn Víglundsson þingmaður Viðreisnar spurði hvort ríkisstjórnin hefði farið í langt vetrarfrí og gleymt að láta vita af því. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorsteinn Víglundsson þingmaður Viðreisnar lýsti eftir ríkisstjórninni í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag. Þingmaðurinn spurði hvort ríkisstjórnin hefði lagt niður störf, eða farið í langt vetrarfrí og gleymt að láta þingið vita af því.

Ríkisstjórnin var gagnrýnd af stjórnarandstöðunni fyrir að leggja þingmál haustþingsins seint fram og sagði Þorsteinn að svo virtist ætla að verða aftur raunin núna á vorþingi.

Þorsteinn segir ríkisstjórnina hafa áformað að leggja fram 48 mál í janúar og febrúar samkvæmt þingmálaskrá, en einungis fimm þeirra væru til þingsins komin, eða rúm 10% málanna.

„Þess vegna held ég að það sé tilefni til að spyrja, er þessi ríkisstjórn hætt störfum?“ sagði þingmaðurinn, sem spurði einnig til hvers væri verið að fjölga nefndadögum þegar ekkert bólaði á málum frá ríkisstjórninni til að ræða í nefndunum.

„Magn er auðvitað ekki sama og gæði“

Birgir Ármannsson þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks fann sig knúinn til þess að bregðast við gagnrýni bæði Þorsteins og Oddnýjar Harðardóttur, þingmanns Samfylkingar, sem einnig gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir það sama.

Birgir sagði að magn væri auðvitað ekki það sama og gæði.

„Mælikvarði á árangur og gæði þingstarfanna felst ekki í fjölda samþykktra mála og heldur ekki í fjölda framlagðra mála,“ sagði Birgir og bætti við að sú ríkisstjórn væri ekki best sem kæmi með flest frumvörpin og samþykkti flest mál.

„Sú ríkisstjórn er ekki best sem kemur með flest frumvörpin …
„Sú ríkisstjórn er ekki best sem kemur með flest frumvörpin og samþykkir flest mál,“ sagði Birgir. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert