Tveir Íslendinganna áttu að koma heim í dag

Sjö Íslend­ing­ar eru meðal eitt þúsund gesta hót­els­ins H10 Costa …
Sjö Íslend­ing­ar eru meðal eitt þúsund gesta hót­els­ins H10 Costa Adeje Palace á Teneri­fe sem nú eru í sótt­kví. Tveir þeirra áttu bókað flug heim í dag. AFP

Tveir Íslendinganna sjö sem eru í sóttkví á hóteli á Tenerife eftir að kórónuveirusmit greindist hjá hótelgesti í gær áttu að koma heim með flugi í dag. 

„En þau eru í ágætisyfirlæti eftir því sem ég best veit. Fararstjórinn okkar hefur verið í sambandi við þau,“ segir Þrá­inn Vig­fús­son, fram­kvæmda­stjóri Vita­ferða, í samtali við mbl.is. Sjömenningarnir eru á H10 Costa Adeje Palace-hótelinu á vegum Vita. Alls eru um 1.000 gestir og starfsfólk hótelsins í sóttkví. 

Ítalskur læknir greindist með COVID-19-veiruna í gær og í kvöld fékkst það staðfest að eiginkona hans er einnig smituð. 

Ítölsk hjón sem dvöldu á H10 Costa Adeje Palace-hótelinu á …
Ítölsk hjón sem dvöldu á H10 Costa Adeje Palace-hótelinu á Tenerife hafa greinst með COVID-19-veiruna. Skjáskot af Bookings

Tíu afbókanir í flug til Tenerife á morgun

Tíu hafa afbókað ferð til Tenerife með Vita sem fer á morgun, en alls eru 180 sæti í vélinni. „Það eru einstaklingar sem eru kannski með undirliggjandi sjúkdóma og afbóka af heilsufarsástæðum og eru með læknisvottorð,“ segir Þráinn. 

Fyrr í dag afbókuðu fimm ein­stak­ling­ar ferð til Teneri­fe með ferðaskrif­stof­unni Heims­ferðum með flugi sem fór í loftið í hádeginu í dag með flug­fé­lag­inu Norweg­i­an. 

Þórunn Reynisdóttir, for­stjóri Úrvals-Útsýn­ar, segir að nokkrar afbókanir hafi borist ferðaskrifstofunni í dag á ferðum sem fyrirhugaðar eru næstu dagar en gat ekki gefið upp nákvæma tölu þegar eftir því var leitað. 

Úrval-Útsýn er með tvær ferðir til Tenerife í vikunni og eina til Veróna á Ítalíu á laugardaginn. „Við höldum ró okkar og fylgjumst vel með og erum vel upplýst,“ segir Þórunn, en ferðaskrifstofan hefur bent viðskiptavinum sínum á ráðleggingar landlæknis vegna ferðalaga til Norður-Ítalíu og Tenerife, hafi þeir spurningar um ferðaáætlanir sínar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert