Fölsk neitun möguleg ef prófað er of snemma

Aðspurður segir Þórólfur að það sé enginn skortur á prófum, …
Aðspurður segir Þórólfur að það sé enginn skortur á prófum, nóg sé til af þeim. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einstaklingar sem eru einkennalausir en þó sýktir af kórónuveirunni geta fengið falska neitun í sýnatökum vegna veirunnar og því haldið að þeir séu ekki sýktir. Þetta segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Hann tekur þó fram að prófin sem notuð eru til að athuga hvort fólk hafi smitast séu mjög áreiðanleg, það þurfi einfaldlega að tímasetja þau rétt. Þórólfur mælir eindregið gegn því að fólk sem er í sóttkví fari í skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu á meðan á sóttkvínni stendur.

„Við höfum ekkert betra próf en þetta PCR-próf sem leitar að kjarnsýru veirunnar og er áreiðanlegasta próf sem er til, almennt séð. Það nær fleirum en ræktun til dæmis og er áreiðanlegra, svo að þetta er besta próf sem við höfum,“ segir Þórólfur, sem bendir á að það að prófið geti reynst neikvætt en sá sem prófaður er samt sýktur segi ekki til um gæði prófsins. 

„Það segir bara til um hegðun veirunnar í einstaklingnum sem er smitaður, hún er ekki í nefinu og hún er ekki búin að fjölga sér þannig að prófið greini hana. Þegar einstaklingur er orðinn veikur og kominn langt inn í þennan meðgöngutíma verður prófið jákvætt. Þá er það mikið af veirunni til staðar að hún finnst. Menn eru að rugla þessu svolítið saman, að næmi prófsins sé ekki nema 70%, þá eru menn algjörlega að rugla saman hugtökum. Þegar maður reiknar út næmi þarf maður að meta eina rannsóknaraðferð við aðra rannsóknaraðferð. Besta rannsóknaraðferðin til þess að meta aðra rannsóknaraðferð við er PCR-prófið. Við höfum ekkert betra próf til að miða við.“

Vilja ekki prófa of snemma

Spurður hvort það sé þá ekki nauðsynlegt að prófa fólk nokkrum sinnum segir Þórólfur:

„Þess vegna erum við að mælast til þess að fólk sé ekki prófað of snemma, að prófa ekki einkennalausa þar sem þeir gætu komið inn eftir nokkra daga og þá er veiran búin að fjölga sér nægilega mikið í nefinu til að þeir greinist jákvæðir. Við viljum helst ekki eyða prófinu of mikið, þetta er takmörkuð auðlind sem við höfum og það getur líka gefið falska niðurstöðu. Einstaklingur sem fær neikvæða niðurstöðu, þ.e.a.s. honum finnst hún jákvæð því hann er ekki með veiruna samkvæmt prófinu, hann fer út, en svo er hún kannski komin til staðar og veiran farin að fjölga sér eftir tvo til þrjá daga, það er að segja ef hann er í sóttkví og hefur verið útsettur.“

Varar við prófum úr sóttkví

Aðspurður segir Þórólfur þó að það sé enginn skortur á prófum, nóg sé til af þeim.

Almannavarnir hafa fengið fregnir af því að einstaklingar í sóttkví hafi verið að fara í sýnatöku hjá Íslenskri erfðagreiningu. Þórólfur mælir eindregið gegn því. 

„Í fyrsta lagi er það brot á sóttkvíarreglunum sem við höfum sett upp og í annan stað getur neikvætt sýni hjá einstaklingi sem gæti verið smitaður oft verið falskt, það getur verið falskt neikvætt þannig að einstaklingar fá kannski falska niðurstöðu og halda að þeir séu í lagi og fara úr sóttkvínni en gætu í raun verið sýktir og prófið orðið jákvætt nokkrum dögum seinna. Þannig að ég vil eindregið vara við þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert