Smitandi lifrardrep felldi kanínurnar

Kanínur í Elliðaárdalnum.
Kanínur í Elliðaárdalnum. Ljósmynd Margrét Sif Sigurðardóttir

Orsök veikinda og dauða mikils fjölda kanína í Elliðaárdalnum er að öllum líkindum sjúkdómurinn smitandi lifrardrep. Þetta sýna bráðabirgðaniðurstöður rannsókna á kanínuhræjum sem Matvælastofnun sendi til greiningar á Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi sjúkdómur greinist í kanínum utan kanínubúa eða heimila á Íslandi.

Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá Mat­væla­stofn­un.

Þar segir að kanínueigendur skuli gæta þess að smit berist ekki í kanínur þeirra með því að kynna sér eðli sjúkdómsins og hvað hægt er að gera til að verjast smiti. Veiran sem veldur sjúkdómnum sýkir ekki önnur dýr eða fólk.

Lifrardrep í kanínum er alvarlegur tilkynningarskyldur sjúkdómur. Hann hefur einu sinni áður komið upp hér á landi. Það var árið 2002 og þá takmarkaðist smitið við kanínubú og heimiliskanínur. Með niðurskurði og smitvarnaráðstöfunum tókst að ráða niðurlögum hans.

Lifrardrep í kanínum er bráðsmitandi og banvænn sjúkdómur í kanínum. Sjúkdómurinn nefnist á ensku Rabbit Haemorrhagic Disease. Sjúkdómnum veldur ákveðin tegund calici veira. Þrjár gerðir veirunnar eru þekktar, RHDV1, RHDV1a og RHDV2. Ekki er vitað um hvaða gerð er að ræða hér en sýni hafa verið send til rannsókna erlendis og er niðurstöðu þeirra að vænta í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert