Gætu verið í öndunarvél í allt að þrjár vikur

Landsspítalinn með tveimur s-um. Sú stafsetning tíðkaðist í bland áður …
Landsspítalinn með tveimur s-um. Sú stafsetning tíðkaðist í bland áður fyrr. mbl.is/Þórður

Mögulegt er að sjúklingar sem eru á gjörgæslu vegna kórónuveirunnar geti verið í öndunarvél í allt að þrjár vikur. Þetta segir Bryndís Sigurðardóttir, smitsjúkdómalæknir á Landspítalanum. Ragnar Freyr Ingvarsson, yfirlæknir á COVID-göngudeild Landspítalans, tekur undir þetta. Þessi staðreynd hafi legið fyrir frá því í janúar, er veiran kom upp í Kína.

Sex eru á gjörgæslu spítalans, allir í öndunarvél.

Sérstakri COVID-göngudeild var komið upp á Landspítala á þriðjudag og segir Ragnar að hundruð starfsmanna vinni á henni, þar af tugir lækna sem áður störfuðu á öðrum deildum. Sjálfur er Ragnar almennur lyflæknir en hann var færður til í starfi og hefur sinnt málefnum tengdum veirunni síðustu tvær vikur. „Það er búið að endurskipuleggja allt starf spítalans,“ segir Ragnar.

Aðspurður segir Ragnar of snemmt að segja til um langtímaafleiðingar sjúkdómsins hjá þessu fólki. „Sjúkdómurinn er bara innan við þriggja mánaða gamall.“

Ragnar Freyr Ingvarsson, yfirlæknir COVID-göngudeildar Landspítala.
Ragnar Freyr Ingvarsson, yfirlæknir COVID-göngudeildar Landspítala. mbl.is/Hanna Andrésdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert