Yfir hálendið dregnir áfram af drekum

Skúli með sleðann í eftirdragi og drekann á lofti.
Skúli með sleðann í eftirdragi og drekann á lofti. Ljósmynd/Hallgrímur Magnússon

Í síðasta mánuði héldu þrír vanir fjallamenn í skíðaferðalag frá Hrauneyjum norður fyrir Vatnajökul og alla leið til Þórshafnar. Samtals var um að ræða 450 kílómetra leið sem farin var á fimm dögum, en til ferðarinnar nýttu þeir sér svokallaða dreka (e. kite) auk þess að draga sérhannaða sleða á eftir sér sem eru íslensk hönnun. Upphaflega átti ekki að fara þessa leið, heldur hafði stefnan verið sett á þrefalt lengra ferðalag erlendis. Ferðatakmarkanir breyttu hins vegar áætluninni og í sárabætur fengu menn að upplifa dýrð íslenska hálendisins.

Skúli Magnússon héraðsdómari var einn þeirra sem fóru þessa ferð, en hann deilir ferðasögunni með mbl.is. Með honum fóru þeir Hallgrímur Magnússon og Einar Kristján Stefánsson, en báðir eru þeir meðal öflugri fjallamönnum landsins og voru meðal annars í fyrstir Íslendinga til að toppa Everest árið 1997 ásamt Birni Ólafssyni. Allir hafa þeir mikla reynslu af drekum sem þessum, bæði á sjó og landi, fyrir þremur árum fóru þeir ásamt Leifi Erni Svavarssyni og Tómasi Júlíussyni 1.200 km leið niður austurströnd Grænlands.

Ætluðu upphaflega að fara niður allt Baffinsland

Ætlunin nú í vetur var hins vegar að fara í talsvert lengri leiðangur sem þurfti að hætta við. „Þeir Einar og Hallgrímur voru á leið með Leifi til Baffinslands og ætluðu í eins og hálfs til tveggja mánaða ferðalag. Fara niður allt Baffinsland með dreka og sleða,“ segir Skúli. Hins vegar hafi allt lokast vegna útbreiðslu kórónuveirunnar og þeir hafi því ákveðið að fara þessa ferð sem einskonar sárabót. „Ég fékk að fljóta með sem þriðja hjólið,“ segir Skúli og hlær.

Vetrarferðalög með drekum eru ekki einföld, heldur taka þau mið af veðri og vindum og þá þarf sérstaklega að huga að landslaginu, meðal annars með tilliti til þess hvernig vindar koma yfir landslagið og hvort hætta sé á sviptivindum. Skúli segir að sett hafi verið upp a-, b- og c-plön allt eftir því hvernig vindar myndu þróast, auk þess sem þekking þeirra á staðháttum væri umtalsverð. Svo var bara að sæta lagi og skella sér af stað þegar spáin var rétt.

Siglt vængjum þöndum yfir Þórisvatn.
Siglt vængjum þöndum yfir Þórisvatn. Ljósmynd/Skúli Magnússon

Hver og einn leiðangursmanna þurfti að vera með þrjá dreka með í för, en Skúli segir að þeir séu allt frá fjórum upp í tólf fermetra að stærð. Þá séu drekar orðnir svo fullkomnir í dag að hægt sé að sigla þeim 15-20 gráður upp í vindinn, en það sé hins vegar eitthvað sem menn reyni að forðast á ferðalagi sem þessu þar sem heppilegast sé að hafa vindinn sem mest í bakið. Til að byrja að „sigla,“ eða komast á smá ferð, þarf 3-4 m/s með stærstu drekunum auk þess sem þarf að huga að því að sleðinn getur verið 50-70 kg með búnaðinum.

Kjöraðstæður eru að hans sögn um 10 m/s og þá miðstærð af dreka, eða um 8 fm. Segir Skúli að þá sé mjög auðvelt að ráða við drekann, hann sé stöðugur og dragi þokkalega auk þess sem minni hætta sé á að menn slasi sig, en slíkt sé til dæmis líklegra þegar stærsti drekinn sé notaður og ef það kemur sviptivindur. „Þá er þetta rosalega stór flötur sem tekur á sig vind,“ segir hann og bætir við að menn geti auðveldlega tekið á loft.

„Straujað“ yfir Þórisvatn og upp í Gæsavötn

Sem fyrr segir byrjaði ferðalag þeirra við Hrauneyjar. Skúli segir að frá Hrauneyjarlóni hafi verið farið að Þórisvatni og svo „straujað yfir vatnið.“ Þar hafi verið þægilegt að fara yfir enda slétt undirlag á ísi lögðu vatninu. Þaðan var svo stefnan tekin í austur upp Hágönguhraun og inn í Vonarskarð og í Gæsavötn. Þessi leið er hins vega ekki alltaf fær, en mikill snjór var á hálendingu þegar þeir fóru og segir Skúli að almennt hafi snjóleysi ekki haft áhrif á þá í þetta skiptið. Þennan fyrsta dag enduðu þeir í Gæsavötnum með mikinn vind í bakið og með minnstu drekana á lofti.

Gróflega áætluð leið þremenninganna frá Hrauneyjum alla leið á Þórshöfn.
Gróflega áætluð leið þremenninganna frá Hrauneyjum alla leið á Þórshöfn.

„Ferðamennska sem býður upp á gríðarlega mikið vesen“

Spurður út í hversu langir dagarnir séu á svona ferðalagi segir Skúli að þeir séu að fara um 70-110 km á venjulegum degi. Þó að drekarnir geti dregið þá nokkuð hratt þurfi að gera ráð fyrir tíma í að taka niður dreka og ganga frá honum, ef þörf er á að skipta um stærð. Slíkt taki allavega 20 mínútur, enda þurfi að ganga frá drekanum þannig að auðvelt sé að brúka hann á ný. „Svo flækist eitthvað eða menn missa drekann niður. Þá þurfa hinir að bíða,“ segir hann og bætir við að búast megi við að allavega 20% af tímanum á hverjum legg fari í „frágang, skiptingar og alls konar vesen. Þetta er ferðamennska sem býður upp á gríðarlega mikið vesen,“ segir hann, en heyra má að slíkt kemur ekki í veg fyrir að Skúli hafi ánægju af þessum ferðamáta.

Víða þurfi svo að fara varlega um, t.d. í Hágönguhrauni sem sé úfið hraun þar sem hraunið komi upp úr snjónum. Allt þetta leiðir til þess að dagarnir verða langir. „Þetta eru svona 10-11 klukkustunda dagar. Við vöknum um klukkan 6 og erum komnir af stað klukkan 8, jafnvel fyrr,“ segir hann. Þeir komu svo vanalega í hús fyrir kvöldmatartíma en þá tók við að borða og svo beint á koddann.


 

Á degi tvö var strikið tekið frá Gæsavötnum í litlu skyggni, en heldur birti til þegar leið á. Fóru þeir upp í Dyngjujökul og stefnan þar tekin á Urðarhálsinn og svo þar niður meðfram jöklinum og meðfram Holuhrauni áður en farið var í gegnum Kverkfjallaskarð og yfir Kverká og Kreppu á snjó. Skúli segir að þarna hafi verið orðið mjög hvasst, en dagleiðina enduðu þeir í Grágæsadal. „Þetta var erfiður dagur. Allir dagarnir eru reyndar erfiðir í minningunni, en þetta var líklega erfiðasti dagurinn,“ segir hann en tekur fram að þetta jafnframt verið gríðarlega fallegur dagur.

„Rennum okkur inn í sólina þar sem Herðubreið blasir við“

„Þegar við förum niður Urðarhálsinn að mörkum Dyngjujökuls og rennum okkur inn í sólina þar sem Herðubreið blasir við á vinstri hönd ásamt Dyngjufjöllum og Snæfelli. Þetta er með flottari stöðum sem hægt er að hugsa sér. Bjart yfir og landið í sínum fegurstu flíkum, en þessi fjöll eiga að vera hvít af snjó.“

Þetta var heldur stuttur leggur, aðeins 70 km, en Skúli segir að vegna landslagsins hafi leiðin verið torfarin. „Við vorum tilbúnir með tjald með okkur, en það er auðvitað þægilegra að vera í skála,“ segir hann og náðu þeir seint um kvöldið í Grágæsadal.

Við gangnamannakofann að Melum. Hér sést ágætlega hvernig sleðarnir eru …
Við gangnamannakofann að Melum. Hér sést ágætlega hvernig sleðarnir eru hannaðir. Ljósmynd/Skúli Magnússon

Minnstu drekarnir trimmaðir niður

Þriðji dagurinn var að sögn Skúla sólríkur, en hins vegar var mjög hvasst, í raun bálhvasst allan daginn. Voru þeir enda á minnstu drekunum allan tímann og segir hann að jafnvel hafi þurft að „trimma þá aðeins niður“, en þannig drógu þeir úr því afli sem drekinn beislaði.

Fóru þeir um Laugarvalladal, en þar lentu þeir í miklum sviptivindum. „Menn tókust á loft, en sem betur fer urðu ekki slys á mönnum eða búnaði,“ segir Skúli. Þaðan var siglt áfram vængjum þöndum yfir Sænautavatn og þjóðveg 1 að gangnamannakofanum að Melum við afleggjarann að Vopnafirði á Tunguheiði.

Ljósmynd/Skúli Magnússon

Veðurspáin breytist

Vegna breyttrar veðurspár var orðið ólíklegt að þeir gætu haldið áfram daginn eftir norður á Þórshöfn. Því var ákveðið að koma sér niður í Vopnafjörð og halda heim þaðan eftir góða daga á fjöllum. Var leiðin þangað um 50 kílómetrar og segir Skúli að samferðamenn sínir hafi kallað þetta „hvíldardag“ eftir á. Þegar þeir voru komnir niður á Vopnafjörð og ætluðu að halda heim sá Einar hins vegar að veðurspáin fyrir næsta dag hafði breyst til hins betra og orðin mjög hagstæð til að halda áfram norður.

„Það var ekki beint mikið að gera í bænum. Maður var eiginlega beðinn um að vera sem lengst fjarverandi,“ segir Skúli á léttu nótunum, en í hans tilfelli hafði fjöldi aðalmeðferða fyrir héraðsdómi verið felldur niður. „Það varð úr að við ákváðum að klára ferðina eins og ráð hafði verið fyrir gert,“ segir hann. Því hafi þeir komið sér upp að Melum á ný og gist þar aðra nótt og svo haldið daginn eftir af stað að Þórshöfn.

Á fullri ferð yfir snævi þakið hálendið.
Á fullri ferð yfir snævi þakið hálendið. Ljósmyndari/Skúli Magnússon

Sviptivindarnir taka á taugarnar

„Þetta varð mjög erfiður dagur,“ segir Skúli. „Við fórum á móti vindi í byrjun og þegar hvessti átti maður erfitt með að halda stefnunni og vindurinn feykti manni niður,“ bætir hann við. Sviptivindar í dölum á leiðinni hafi orðið til þess að þeir þurftu að nota minnstu drekana. Þegar þeir komu svo að Hafralóni og heiðina þar í kring hafi tekið við nokkuð slétt land og góður vindur í bakið. „Mér reiknast til að við höfum farið 50 km á einni og hálfri klukkustund,“ segir Skúli og það vottar fyrir því að honum finnist það helst til of geyst.

Spurður út í hvað sé erfiðast á ferð sem þessari segir Skúli að það að sigla áfram í drifsköflum og erfiðu færi klukkustundum saman taki mjög mikið á. Þá taki það á taugarnar þegar vindar séu eins og á degi þrjú og fimm, þar sem von er á sviptivindum. „Maður sér á landslaginu að maður getur átt von á þeim og mesti beygurinn er við það.“

Sérhannaðir íslenskir sleðar

Sem fyrr segir notuðust þeir við sérhannaða íslenska sleða til að draga á eftir sér búnað og vistir. Reyndar voru þeir aðeins með tvo sleða og segir Skúli að einn þeirra hafi á hverri stundu fengið aðeins meira frelsi til að leika lausum hala. Það er Jóhann Kjartansson sem smíðar sleðana, sem upphaflega voru hugsaðir sem gönguskíðasleðar, en þrímenningarnir höfðu áður notað þá með góðum árangri á Grænlandi. Segir Skúli að þeir séu miklu léttari í drætti en hefðbundnar púlkur, en sleðarnir eru styttri og breiðari auk þess sem það er fjöðrun á skíðunum. Með þessu verða sleðarnir ekki jafn valtir og púlkur og segir Skúli að sleðinn sé um helmingi léttari í drætti. Þá eru þeir með um 150 lítra sérsaumaða sleðapoka frá Seglagerðinni Ægi utan um allan búnað og vistir, en þeir voru einnig saumaðir fyrir Grænlandsferðina.

Komnir á leiðarenda. Við kirkjuna á Þórshöfn.
Komnir á leiðarenda. Við kirkjuna á Þórshöfn. Ljósmynd/Skúli Magnússon

Alltaf fylgdi sólin

Skúli fór sjálfur einn yfir Sprengisand í fyrra á dreka og hefur auk þess farið í fjölmargar ferðir um hálendið. „En þessi ferð var eiginlega einstök varðandi náttúruupplifunina og að sjá hvað landið er fallegt,“ segir hann. Minnist hann sérstaklega leiðarinnar yfir Þórisvatn og í gegnum Hágönguhraun. „Það var kólga og skýjabakkar allsstaðar í kringum okkur, en alltaf reyndumst við vera í smá sól. Það var eins og æðri máttur væri að fylgja okkur að Gæsavötnum,“ segir Skúli að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert