Uppræti ofbeldi og áreitni í hvívetna

16% þeirra sem starfa á Alþingi orðið fyrir kynferðislegri áreitni …
16% þeirra sem starfa á Alþingi orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi eða í tengslum við starfið. mbl.is/​Hari

Aðalfundur Kvenréttindafélags Íslands krefst þess að Alþingi sem og sveitastjórnir grípi til tafarlausra aðgerða til að uppræta kynferðislegt ofbeldi og áreitni í hvívetna. Enn fremur er þess krafist að stjórnmálaflokkar grípi til tafarlausra aðgerða til að uppræta kynferðislegt ofbeldi og áreitni innan stjórnmálahreyfinga.

Þetta kemur fram í ályktun frá Kvenréttindafélagi Íslands. Þar segir að kynferðislegt ofbeldi og áreitni sé bein ógn við lýðræðislega þátttöku kvenna og þar með bein ógn við lýðræði á Íslandi.

16% þeirra sem starfa á Alþingi orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi eða í tengslum við starfið samkvæmt niðurstöðum úr rannsókn sem gerð var á vinnumenningu á Alþingi árið 2020 sem náði bæði yfir starfsfólk og kjörna fulltrúa Alþingis.

„Bæði konur og karlar eru þolendur þvílíkrar hegðunar, en ljóst er þó að konur á Alþingi verða frekar fyrir áreitni og ofbeldi. Konur og karlar sem starfa á Alþingi greindu í jafn miklum mæli frá því að hafa orðið fyrir einelti en 24,4% kvenna greindu frá því að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi eða í tengslum við starf sitt á Alþingi en tæplega 6% karla. Í rannsókninni var einnig spurt hvort alþingisfólk teldi kynferði sitt hafa neikvæð áhrif á möguleika sína á framgangi í starfi. Alls telja 59% þingkvenna kyn sitt hamla framgangsmöguleikum sínum, samanborið við 17% þingkarla.“

 



 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert