Tilkynna um niðurstöður skimana á morgun

1.500 farþegar fóru um Keflavíkurflugvöll í dag, samkvæmt upplýsingum frá Isavia, 900 manns sem komu til landsins og 600 sem flugu héðan.

Ef tölurnar eru settar í samhengi við farþegafjölda síðustu mánaða slagar fjöldi þeirra sem flugu frá landinu í dag upp í heildarfjölda þeirra sem fóru frá landinu í öllum aprílmánuði en þá komu 1.264 til landsins og fóru 1.262 héðan með flugi. Í maí voru farþegarnir aðeins fleiri en þá komu 1.954 til landsins og 1.759 flugu á brott.

Gekk þokkalega hjá Íslenskri erfðagreiningu

Farþegar sem komu til landsins í dag voru skimaðir fyrir kórónuveirunni. Íslensk erfðagreining sér um að greina sýnin en Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, upplýsingafulltrúi fyrirtækisins, segir að greint verði frá þeim á morgun. 

Íslensk erfðagreining greindi því 900 sýni úr farþegum í dag og segir Þóra að það hafi gengið þokkalega. 30 starfsmenn koma að því að greina sýnin hjá Íslenskri erfðagreiningu. 

Á morgun verður boðað til blaðamannafundar hjá forsætisráðherra vegna skimunarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert