Starfsmenn Lundarskóla einkennalausir

Hér má sjá Lundarskóla á Akureyri.
Hér má sjá Lundarskóla á Akureyri. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Stefnt er að því að starfsfólk Lundarskóla á Akureyri fari í sýnatöku á miðvikudag vegna smits sem kom upp hjá starfsmanni skólans. Allir starfsmenn skólans eru enn einkennalausir, utan þessa eins sem smitaður er, og því er ekki forgangsatriði að þeir komist í skimun. Sviðsstjóri fræðslusviðs bæjarins segir ánægjulegt að útlit sé fyrir að smitið hafi ekki verið útbreitt innan skólans.

„Starfsmaðurinn sem um ræðir var ekki í návígi við nemendur skólans áður en hann smitaðist og var því ekki ástæða til þess að halda að börnin væru útsett fyrir smiti. Hins vegar þarf starfsfólk sem var í návígi við hinn smitaða að fara í skimun og er stefnt að því á miðvikudag. Allir eru enn einkennalausir,“ segir Karl Frímannsson, sviðsstjóri fræðslusviðs Akureyrarbæjar, í samtali við mbl.is.

Grunnstigi skólans verður lokað til og með miðvikudegi en kennsla mun halda áfram á unglingastigi þar sem hún fer fram annars staðar í bænum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert