Áhrif af vindmyllum metin

Með tæknina á bakinu Nær fullvaxinn arnarungi með leiðarrita, en …
Með tæknina á bakinu Nær fullvaxinn arnarungi með leiðarrita, en tólf ungir hafernir bera nú svona tæki sem gefa upplýsingar um ferðir þeirra og búsvæðanotkun. Ljósmynd/Kristinn Haukur Skarphéðinsson

Tólf ungir hafernir bera nú leiðarrita og er markmiðið að með þessum senditækjum takist að varpa skýrara ljósi á búsvæðanotkun ungra arna. Fyrirtækið EM-orka ehf., sem hyggst reisa vindorkuver á Garpsdalsfjalli í Reykhólasveit, ber kostnað af tveimur tækjanna.

Talið er að leiðarritar muni auðvelda mat hugsanlegra áhrifa af vindmyllugörðum á örninn. Sex ungar fæddir 2019 bera þessi merki. Tiltölulega skammur tími er liðinn frá því að þeir flugu að heiman og vafasamt að draga miklar ályktarnir fyrr en lengra er liðið á rannsóknina, samkvæmt upplýsingum frá Náttúrufræðistofnun. Eins þarf að fjölga ungum með leiðarrita til að fá meiri upplýsingar, en fyrirhugað er að fjölga ungum með senditæki á næsta ári, að því er fram kemur í umfjöllun um rannsóknir þessar í Morgunblaðinu í dag.

Fjallað var um þessa tækni í Morgunblaðinu í vikubyrjun, en hún hefur ekki áður verið nýtt til rannsókna á haförnum hér á landi. Í ársskýrslu Náttúrufræðistofnunar er greint frá því að víða á útbreiðslusvæði hafarna í heiminum hafi ferðir ungra arna verið kortlagðar með notkun rafeindatækja sem sum hver staðsetja fuglana með mikilli nákvæmni, oft mörgum sinnum á dag.

„Með því móti er hægt að meta hvaða svæði eru þýðingarmikil og eins í hve miklum mæli fuglarnir leggja leið sína um svæði þar sem þeim getur verið hætta búin. Finnar hafa t.d. kortlagt nákvæmlega helstu búsvæði arna með hliðsjón af fyrirhuguðum vindmyllusvæðum á grundvelli slíkra gagna,“ segir í ársskýrslunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert