World Class opnað á morgun

Frá og með morgundeginum geta líkamsræktarstöðvar boðið upp á skipulagða …
Frá og með morgundeginum geta líkamsræktarstöðvar boðið upp á skipulagða tíma undir ákveðnum skilyrðum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Líkamsræktarstöðvar World Class munu opna dyr sínar að nýju frá og með morgundeginum. Á heimasíðu fyrirtækisins segir að haldnir verði skipulagðir tímar með þjálfara næstu tvær vikurnar.

Vísað er í reglugerð sem birt var á heimasíðu heilbrigðisráðuneytisins þar sem íþrótta- og heilsuræktarstarfsemi er heimiluð undir ákveðnum skilyrðum „ef um er að ræða skipulagða hóptíma þar sem allir þátttakendur eru skráðir“.

19 manna hámark verður í tímana og fullyrt er í tilkynningu World Class að tveggja metra reglan verði viðhöfð og tryggð. 

Gert er ráð fyrir að einstaklingar skiptist ekki á með búnað og að allur búnaður verði sótthreinsaður á milli tíma. Skylt er að vera skráður í tíma til þess að fá inngöngu. Tímarnir eru því sniðnir að fyrirmælum sem fram koma í reglugerðinni sem tekur gildi á morgun.

Þá hafa crossfitstöðvarnar Crossfit Reykjavík og Grandi 101 einnig auglýst opið með sama hætti frá og með morgundeginum.

Þórólfur mótfallinn því að hafa opið

Á upplýsingafundi almannavarna í dag sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að aðal­upp­spretta þriðju bylgju kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins hér á landi væri á lík­ams­rækt­ar­stöðvum; ekki einni held­ur fleiri.

Þá kom fram í máli Þórólfs að hann mæltist til þess að líkamsræktarstöðvar yrðu áfram lokaðar.

Björn kallar eftir rökstuðningi

Í samtali við mbl.is segir Björn Leifsson, eigandi World Class, ummæli sóttvarnalæknis um uppsprettu faraldursins gagnrýniverð. Hann kallar eftir rökstuðningi.

„Ég er búinn að taka aðeins saman, frá því Covid byrjaði erum við með 3,5 milljónir mætinga, þangað til það komu upp þrjú smit hérna frá einkaþjálfara. Það eru einu tilfellin sem ég veit um frá því Covid byrjaði á 3,5 milljónir mætinga.“

Björn bætir því við að smitin sem hann veit af hafi verið maður-á-mann-smit en ekki vegna notkunar á sama búnaði.

„Hvorki Þórólfur né nokkur annar hefur talað við okkur eða látið okkur vita um eitt eða annað tilfelli, svo ég kalla svolítið eftir rökstuðningi hjá honum á þessa fullyrðingu sína,“ sagði Björn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert