Landsvirkjun vísar fullyrðingum Norðuráls á bug

Húsnæði Landsvirkjunar.
Húsnæði Landsvirkjunar. mbl.is/Jón Pétur

Landsvirkjun vísar alfarið á bug fullyrðingum Norðuráls um að fyrirtækið hafi misnotað stöðu sína sem markaðsráðandi aðili við verðlagningu skammtímaorku.

„Landsvirkjun fer ávallt að ákvæðum samkeppnislaga í starfsemi sinni, m.a. þeim ákvæðum sem banna markaðsráðandi fyrirtækjum að selja orku undir kostnaðarverði og hafa þannig neikvæð áhrif á samkeppni,“ segir í tilkynningu Landsvirkjunar.

Fyrr í dag barst tilkynning frá Norðuráli þar sem kom fram að fyrirtækið hefði sent erindi til Samkeppniseftirlitsins þar sem óskað er íhlutunar vegna málsins.

Ber ekki ábyrgð á skerðingum annarra

Landsvirkjun segist í sinni tilkynningu ekki hafa erindi Norðuráls til Samkeppniseftirlitsins undir höndum. „Í fréttaflutningi hefur hins vegar komið fram að Norðurál hafi í allnokkur ár ekki haft nægjanlega orku í gegnum langtímasamninga til að halda uppi fullri framleiðslu í álverinu. Álverið hafi tímabundið þurft að kaupa raforku til að fylla upp í skerðingar vegna viðhalds hjá öðrum orkuframleiðendum sem Norðurál kaupir orku af, en Landsvirkjun sér Norðuráli aðeins fyrir um 35% af orkuþörf álversins, sem hefur samið við aðra framleiðendur um 65% orkunnar,“ segir í tilkynningunni.

„Verð Landsvirkjunar á skammtímaorku hefur verið við kostnaðarverð síðastliðin misseri og því ekki verið borð fyrir báru til að selja það lægra verði. Landsvirkjun ber að sjálfsögðu ekki ábyrgð á skerðingum annarra raforkuframleiðanda og er ekki eini raforkubirgirinn sem álver og aðrir viðskiptavinir geta leitað til vegna kaupa á skammtímaorku.“

Fram kemur að erindi Norðuráls til Samkeppniseftirlitsins haldist í hendur við tilkynningu móðurfélags þess, Century Aluminium, í gær þar sem tilkynnt var að álveri fyrirtækisins í Suður-Karólínu yrði lokað í desember ef ekki fengist lægra raforkuverð. „Vekur það óneitanlega spurningu um hvort erindið sé liður í áætlun móðurfélagsins um að þvinga niður raforkuverð á starfssvæðum sínum,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert