Faraldurinn hefur áhrif á slysatölur

Í lýsingu á starfssviði umferðarsviðs RNSA segir að sviðið annist …
Í lýsingu á starfssviði umferðarsviðs RNSA segir að sviðið annist rannsókn banaslysa og alvarlegra umferðarslysa. Markmið rannsókna sé að finna orsakaþætti og meðverkandi orsakaþætti sem leiddu til þess að banaslys eða alvarlegt umferðarslys varð. Myndin er úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Einstök svið Rannsóknarnefndar samgönguslysa, RNSA, hafa birt yfirlit um störfin á síðasta ári. Þar kemur m.a. fram að ekkert banaslys var skráð á sjó í fyrra, enginn erlendur ferðamaður lést í umferðarslysi á síðasta ári, en þeim fækkaði verulega á milli ára, og færri tilkynningar um flugatvik eru raktar til færri flugstunda vegna heimsfaraldursins.

Flugsvið

Á árinu 2020 bárust flugsviði RNSA alls 2.281 tilkynning um flugatvik, alvarleg flugatvik og flugslys. Er þetta talsverð fækkun frá 2019 en þá voru tilkynningarnar 3.619. Atvik eru tilkynnt til Samgöngustofu og fær flugsvið RNSA afrit af þeim í þeim tilgangi að ákveða hvort eitthvert þeirra flokkist sem alvarlegt og skuli því tekið til rannsóknar. Fækkun tilkynninga er rakin til almennrar fækkunar flugstunda sökum kórónuveirufaraldursins.

Flugsvið RNSA skoðaði 23 mál af þeim atvikum sem tilkynnt voru og skráði 14 þeirra sem alvarleg flugatvik/flugumferðaratvik eða flugslys og tók þau til formlegrar rannsóknar. Á árinu 2020 voru fjögur mál skráð sem flugslys, ekkert banaslys var í flugi á árinu. Níu mál reyndust þess eðlis að ákveðið var að rannsaka þau ekki frekar eða færð undir aðra rannsókn.

Flugsvið RNSA gerði samtals 28 tillögur og/eða tilmæli í öryggisátt í fyrra. Á síðastliðnu tíu ára tímabili, frá 2011, hefur flugsvið RNSA gefið út samtals 132 tillögur eða tilmæli í öryggisátt sem er um 13 á ári eða að jafnaði rúmlega ein á mánuði.

Umferðarsvið

Árið 2020 létust átta manns í sjö umferðarslysum. Í einu slysanna létust tveir, ökumaður og farþegi bifhjóls. Eitt slysanna til viðbótar var bifhjólaslys. Alls létust því þrír einstaklingar af átta í bifhjólaslysum 2020. Af þessum sjö banaslysum urðu fjögur á suðvesturhorni landsins, eitt á Vesturlandi, tvö á Suðurlandi og eitt á Norðurlandi eystra. Af þessum slysum voru fjórir útafakstrar og þrjár framanákeyrslur. Enginn erlendur ferðamaður lést í umferðinni 2020 en undanfarin ár hefur um þriðjungur látinna verið erlendir ferðamenn, segir í yfirlitinu.

Í lýsingu á starfssviði umferðarsviðs RNSA segir að sviðið annist rannsókn banaslysa og alvarlegra umferðarslysa. Markmið rannsókna sé að finna orsakaþætti og meðverkandi orsakaþætti sem leiddu til þess að banaslys eða alvarlegt umferðarslys varð. Nefndin birti sjö tillögur í öryggisátt í skýrslunum og birti 27 ábendingar eða athugasemdir.

Sjósvið

Engin banaslys urðu á íslenskum sjómönnum við strendur landsins 2020 sem er sjöunda árið sem sú ánægjulega þróun á sér sað og fjórða árið í röð, segir í yfirliti sjósviðs. Önnur ár þar sem engin banaslys urðu við landið eru 2008, 2011, 2014, 2017, 2018 og 2019. Í yfirlitinu er ekki minnst á umfangsmikla leit í Vopnafirði að 18 ára sjómanni síðari hluta maímánaðar, sem ekki bar árangur. Samkvæmt upplýsingum frá Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur það mál ekki komið á borð nefndarinnar.

Skráð atvik hjá RNSA-sjóatvik voru samtals 93 á árinu en voru 106 árið 2019 og 157 árið 2018. Nýjar áherslur frá árinu 2019 á skráningum til sérstakra rannsókna á vélarvana skipum og slysum á fólki skýrir að mestu þessa þróun á milli ára. Flest skráð atvik hjá RNSA voru á NV-svæði eða 40, en það svæði nær frá Snæfellsnesi að Siglufirði og næstflest voru á SV-svæði eða 23, sem er svæðið frá Dyrhólaey að Snæfellsnesi. Á erlendu hafsvæði voru tvö atvik skráð en í báðum tilvikum var um að ræða slys á fólki.

Skráð slys RNSA á fólki á árinu 2020 voru 58 atvik og þar af voru 35 um borð í togveiðiskipum. Meðalaldur slasaðra á árinu var 43 ár og var sá sami á árinu 2019. Yngstu slösuðu í fyrra voru tveir 20 ára hásetar á togveiðiskipum. Elsti slasaði var 66 ára matsveinn á dýpkunarskipi.

Eins og áður eru undirmenn á skipum í miklum meirihluta þeirra sem slasast í skráðum slysum á fólki eða 79%. Flest slysin eru á hásetum, 62% (36), netamönnum 9% (5) og matsveinum 7% (4). Sjö skip sukku á árinu, fimm vegna snjóflóðs á Flateyri, eitt langleguskip í Hafnarfirði og eitt togveiðiskip við bryggju á Stöðvarfirði.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. febrúar. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert