Op sýnir mögulega hellamyndun undir hrauninu

Hér má sjá drónamynd af opinu, þar sem sést í …
Hér má sjá drónamynd af opinu, þar sem sést í hraunstrauminn. Ljósmynd/Donatas Arlauskas

Á hraunbreiðunni í Nátthaga, sem til varð vegna eldgossins í Geldingadölum, hefur myndast op þar sem sjá má ofan á fljótandi hrauná, sem rennur undir yfirborði hraunbreiðunnar. 

Á Facebook-síðu eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands segir að þetta sé vísbending um flókið net hraunæða sem renna undir hraunbreiðunni sjálfri. 

Eftir því sem rásirnar þróast myndast öflugar og stórar aðfærsluæðar, sem veita hraunbráð áleiðis frá gígnum að jaðri hraunsins. Nær jaðrinum dreifast rásirnar og verða minni. Svona hraunrásir eru ekki sýnilegar á yfirborði, nema þak þeirra hrynji líkt og þarna hefur gerst,“ segir á síðunni. 

Þar að auki segir að líklega sé flókið net hella að myndast í hrauninu í Nátthaga.

Donatas Arlauskas tók myndband af hraunbreiðunni sem sýnir opið vel og þar má sjá hraunið renna á þó nokkurri ferð undir yfirborðinu. Myndbandið birti hann á YouTube.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert