Blöskrar að bráðadeild sé enn í sömu stöðu og áður

Jón Magnús Kristjánsson, fyrrverandi yfirlæknir á bráðadeild Landspítala.
Jón Magnús Kristjánsson, fyrrverandi yfirlæknir á bráðadeild Landspítala. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Jón Magnús Kristjánsson, fyrrverandi yfirlæknir bráðadeildar Landspítala, er nýfarinn að vinna aftur á deildinni og hann segir á Facebook-síðu sinni að honum blöskri það hvað ekkert hafi batnað á deildinni síðan hann hætti.

Þannig segir hann að enn séu 20-30 sjúklingar á bráðadeild á hverjum tíma sem ekki fá pláss á legudeildum. Það segir hann að leiði til þess að fólk gefi læknum rangar skýrslur um líðan sína, þar sem það þarf að gera það á sjúkrahúsgöngum í engu næði. Það geti haft alvarlegar afleiðingar, að sögn Jóns.

Dánartíðni geti aukist

Svo segir Jón að meðferðir sjúklingar á bráðadeild tefjist þar sem þeir komast ekki á viðeigandi legudeildir. Það segir hann að geti leitt til þess að veikindi sjúklinga aukist og jafnvel til hækkunar dánartíðni á sjúkrahúsum.

Loks nefnir hann að staðan á bráðadeild geti gert það að verkum að ekki takist að gefa sjúklingum lyf á réttum tíma vegna anna. Sömuleiðis geti sjúklingar misst þvag eða hægðir í sjúkrarúm vegna þess að viðeigandi aðstoð er ekki að fá.

Jón Magnús lýkur pistli sínum á skýrum skilaboðum til stjórnvalda:

„Núna er kortér í kosningar og allir stjórnmálamenn keppast við að lofa öllu fögru en í raun er ekkert að gerast.

Er okkur sem þjóðfélagi orðið alveg sama um þá sem þurfa þjónustu bráðamóttökunnar svo lengi sem við lendum ekki í því sjálf?

Þegar á hólminn er komið virðist sem svo að við séum búin að sætta okkur við þetta ástand og engin áætlun til um að breyta því fyrr en etv eftir 5-6 ár þegar nýi meðferðarkjarninn opnar. (reyndar átti hann líka að opna eftir 5-6 ár fyrir 3 árum).“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert