Grunur um íkveikju við Elliðavatn

Bústaðurinn var alelda þegar slökkviliðið bar að garði.
Bústaðurinn var alelda þegar slökkviliðið bar að garði. Ljósmynd/Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins

Grunur leikur á um að kveikt hafi verið í sumarbústaðnum sem brennur nú við Elliðavatn. Þetta staðfestir Sigurjón Hendriksson, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.

Enn logar eldur í bústaðnum en tilkynning barst slökkviliðinu upp úr klukkan fimm í nótt. Þegar það mætti á vettvang var bústaðurinn orðinn alelda og því lítið hægt aðhafast. 

Að því er fram kom í tilkynningu slökkviliðsins í morgun var ekki talið að neinn hafi verið í bústaðnum þegar hann brann. Aðspurður segir Sigurjón slökkviliðið enn ekki hafa fundið nein merki sem benda til þess að einhver hafi verið í honum.

Þetta er annar bústaðurinn sem brennur á þessu svæði á skömmum tíma.

Lítið sem ekkert notaðir

Er grunur um íkveikju?

„Við svo sem höfum ekki mikið fyrir okkur í því en skynsemin er farin að segja það – manni er svona farið að gruna eitthvað svoleiðis,“ segir Sigurjón.

Spurður hvort einhver önnur skýring komi til greina að svo stöddu, segir hann erfitt að segja til um það. Báðir bústaðirnir hafa verið gamlir og lúnir, og voru þeir nánast ekkert notaðir. Þá hafi ekkert rafmagn verið á bústaðnum sem brann í síðustu viku.

Dagvakt slökkviliðsins hefur nú tekið við á vettvangi og fylgist með áfram með og verður málið síðan fært í hendur lögreglu, eigenda og tryggingafélaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert