Áform um stórt hjúkrunarheimili

Flogið yfir Kópavog.
Flogið yfir Kópavog. mbl.is/Sigurður Bogi

Uppfærð drög að viljayfirlýsingu heilbrigðisráðuneytisins og Kópavogsbæjar um að standa saman að byggingu nýs hjúkrunarheimilis í Kópavogi voru lögð fyrir bæjarráð í fyrradag. Gert er ráð fyrir að þar verði allt að 120 rými, nærri tvöfalt fleiri en nú eru í Sunnuhlíð.

Viðræður hafa síðustu ár verið milli ríkis og bæjar um uppbyggingu nýs hjúkrunarheimilis í Kópavogi sem kæmi í stað Sunnuhlíðar. Aðstaðan þar er ekki lengur talin standast kröfur sem gerðar eru til slíkra heimila. Sunnuhlíð er rekin af Vigdísarholti, félagi í eigu ríkisins, eins og fleiri heimili. Þar eru nú 66 almenn hjúkrunarrými og fjögur fyrir hvíldarinnlögn með endurhæfingu og til viðbótar 20 dagdvalarrými.

Á lóð Kópavogsbæjar

Fyrir rúmum tveimur árum lýsti Kópavogsbær sig reiðubúinn til að skoða úthlutun á lóðum nr. 5 til 17 við Kópavogsbraut til Sunnuhlíðar í þessum tilgangi. Þær lóðir eru skammt frá núverandi hjúkrunarheimili og sumar í eigu bæjarins en aðrar í eigu ríkisins. Gert var ráð fyrir að hús við Kópavogsbraut myndu víkja, meðal annars kvennafangelsið og byggingin sem hýsir Arnarskóla. Í drögum að viljayfirlýsingu sem meirihluti bæjarráðs samþykkti í fyrradag að vísa til afgreiðslu bæjarstjórnar er aftur á móti kveðið á um það að húsið rísi á lóðum Kópavogsbæjar. Samkvæmt því er ekki gert ráð fyrir að hús Arnarskóla víki.

Theódóra S. Þorsteinsdóttir, bæjarráðsfulltrúi Viðreisnar, greiddi atkvæði á móti, lét bóka að ekki væri tímabært að lofa úthlutun lóðar við Kópavogstún. Telur hún að slíkt fjölbýli rúmist ekki innan lóðar Kópavogsbæjar og íbúar hafi hafnað svo miklu byggingarmagni.

Kveðið er á um að ríkið greiði 85% stofnkostnaðar en bærinn 15% og þarf að tryggja fjármögnun á fjárlögum og fjárhagsáætlun.

Verði þau áform sem fram koma í viljayfirlýsingunni samþykkt þarf að ráðast í skipulagsbreytingar. Áform eru um að hefja verklegar framkvæmdir árið 2023 og að taka heimilið í notkun á árinu 2026.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert