Erum nær bjartsýnustu spám en þeim svartsýnustu

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra ræðir við fjölmiðlafólk fyrir utan ráðherrabústaðinn …
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra ræðir við fjölmiðlafólk fyrir utan ráðherrabústaðinn í hádeginu í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Lítil breyting er á áherslum stjórnvalda þegar kemur að sóttvarnaaðgerðum, eins og heyra mátti á forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra eftir ríkisstjórnarfund í dag. Stefnan er sem áður að vernda Landspítala gegn því að sökkva í kaf undan álagi.

Heilbrigðisráðherra var ómyrkur í máli.

„Það eru mjög krítískir dagar hér framundan. Við þurfum að vakta stöðuna, við ræddum það hér í ríkisstjórn að við þurfum að vera tilbúin til þess að standa með heilbrigðiskerfinu,“ sagði Willum Þór Þórsson við blaðamenn að loknum ríkisstjórnarfundi.

Setið var um Willum í Tjarnargötunni. Hann veitti blaðamönnum stóru …
Setið var um Willum í Tjarnargötunni. Hann veitti blaðamönnum stóru miðlanna viðtöl í úrhellisrigningu. mbl.is/Árni Sæberg

Hann segir að einhugur hafi verið í ríkisstjórn um þær aðgerðir sem taka gildi aðfararnótt fimmtudags. Þær verða með öllu óbreyttar þeim reglum sem nú eru í gildi.

Af því má skilja að einhverjir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins t.a.m. hafi dregið í land með sitt andóf á hörðum aðgerðum. Hvað fór þó manna á milli innan veggja Ráðherrabústaðsins í dag veit þó enginn nema ráðherrarnir sjálfir.

Katrín bjartsýn

Næstu daga og vikur munu landsmenn því búa við takmarkanir sem heilbrigðisráðherra viðurkennir að séu harðar, en þrátt fyrir það er hann bjartsýnn og það er Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra líka.

„Við erum að framlengja aðgerðir enn um sinn,“ sagði Katrín eftir ríkisstjórnarfund og bætti við:

„En, góðu tíðindin eru þau að við erum að sjá fleiri og fleiri gögn renna stoðum undir að það er miklu lægra hlutfall fólks með Ómíkron sem leggst inn á spítala, miklu lægra hlutfall sem er að veikjast alvarlega.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fyrir utan ráðherrabústaðinn í hádeginu í dag.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fyrir utan ráðherrabústaðinn í hádeginu í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Hún benti þó á að á hverjum degi greinist enn mörg smit Delta-afbrigðis kórónuveiru sem valdi því að enn fjölgi innlögnum á Landspítala.

„Við þurfum að taka á honum stóra okkar núna og standa með fólkinu okkar sem er í þessu 24 tíma á sólarhring að sinna veiku fólki,“ sagði Katrín um heilbrigðisstarfsfólk í framlínunni.

Katrín segir einnig að svörtustu spár um innlagnir virðast ekki ætla að ganga eftir.

„Spítalinn hefur verið að byggja á ákveðnum sviðsmyndum út frá innlögnum og þar erum við að sjá að það eru ekki svartsýnustu sviðsmyndirnar að ganga eftir heldur eitthvað nær einhvers á milli bjartsýnis og meðalvegarins í því,“ sagði Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert