Ýmsar skýringar á því að samningurinn var felldur

Að sögn Þorgerðar eru ýmsar skýringar á því að samningurinn …
Að sögn Þorgerðar eru ýmsar skýringar á því að samningurinn var felldur en þær liggi ekki á borðinu eins og staðan er núna. mbl.is/Hari

„Niðurstaðan þýðir auðvitað bara það sem hún segir, að mjög stór hópur kennara er sammála því að þessi samningur sé ekki nægilega góður og ekki á vetur setjandi, sem þýðir að hann var felldur,“ segir formaður Félags grunnskólakennara, Þorgerður Laufey Diðriksdóttir.

Grunn­skóla­kenn­ar­ar felldu nýj­an kjara­samn­ing sem þeir greiddu at­kvæði um síðustu daga. Tæp­lega þrír af hverj­um fjór­um fé­lags­mönn­um í félaginu sem tók þátt í at­kvæðagreiðslu kusu  að fella samn­ing­inn, en kjör­sókn var 69%.

„Tölurnar eru bara skýrar og kennarar eru samhentir í verkefnum sínum og þarna sýnir það enn og aftur að það er ljóst að niðurstaðan er afgerandi,“ segir Þorgerður og bætir við að ekki sé hægt að greina úr tölunum hvað hafi verið til þess að samningurinn hafi verið felldur.

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara.
Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara.

„Mjög mikilvægt að þetta er lýðræðislegur ferill“

Að sögn Þorgerðar eru ýmsar skýringar á því að samningurinn var felldur en þær liggi ekki á borðinu eins og staðan er núna.

„Það er ekki óskað eftir því að fólk geri grein fyrir því hvers vegna það kjósi já eða nei eða skili auðu heldur hreinlega er þetta niðurstaðan.“

Þorgerður segir að næstu skref séu að fylgja þeim leikreglum sem séu á vinnumarkaði, það sé hlutverk og ábyrgð aðila að gera kjarasamning og að skoða þurfi hvaða skref þurfi að taka í þeim málum þannig að hægt sé að leggja ásættanlegan kjarasamning á borð kennara.

„Þannig að það er mjög mikilvægt að þetta er lýðræðislegur ferill og þess vegna skiptir máli að bera undir félagsmenn það sem er á borði og skoða síðan í framhaldi eins og í þessu tilfelli hvað skal gera næst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert