„Sjaldgæfur góður dagur“ fyrir þolendur

Ingólfur Þórarinsson (t.v.) og Sindri Þór Sigríðarson (t.h.).
Ingólfur Þórarinsson (t.v.) og Sindri Þór Sigríðarson (t.h.).

„Í dag sagði dómari við héraðsdóm að það væri ekkert refsivert við það að kalla hlutina réttum nöfnum. Segja hlutina eins og þeir eru. Skítt með mig, í dag áttu þolendur sjaldgæfan góðan dag fyrir dómstólum. Því ber að fagna,“ skrifar Sindri Þór Sigríðarson Hilmarsson sem í dag var sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur af kröfu Ingólfs Þórarinssonar tónlistarmanns. Ingólfur stefndi Sindra fyrir meiðyrði.

Sindri fagnaði niðurstöðu héraðsdóms í færslu á Twitter og hefur fengið töluverð viðbrögð við færsluna. 

Ingólfur krafðist þess fyrir dómi að ummæli Sindra á netinu í kjölfar þess að Ingólfur var sakaður um kynferðisbrot og samneyti með ungum stúlkum af fjölda kvenna, yrðu dæmd dauð og ómerk auk þess sem hann krafðist þriggja milljóna króna í miskabætur. 

Um­mæli Sindra féllu bæði á Twitter og í at­huga­semd­um við frétt Stund­ar­inn­ar ann­ars veg­ar og skoðana­grein frá lög­fræðingn­um Helga Áss á Vísi hins veg­ar.

Um­mæl­in voru eft­ir­far­andi:

  1. „Maður sem er svo þekkt­ur fyr­ir að ríða börn­um…“
  2. „Hvað finnst þér rétt­læt­an­legt að full­orðinn maður nýti frægð sína og valda­stöðu til að ríða mörg­um börn­um…“
  3. „Skemmtikraft­ur sem hef­ur stundað það síðastliðin 12-13 ár að ríða börn­um…“
  4. „Trallað í skít­beisikk kassagít­ar­út­gáfu af manni sem ríður börn­um…“
  5. „Til að vinna ör­ugg­lega un­lika­ble keppn­ina þá splæs­ir eig­and­inn í barnaríðing­inn.

Í dómi héraðsdóms er meðal annars fjallað um færslu sem Sindri birti á Twitter síðasta sumar, þar sem hann spurðist fyrir um hvaða vitneskju fólk hefði um að ungar stelpur þyrftu að „passa sig á tilteknum þjóðþekktum tónlistarmanni“ í kjölfar umræðu um afbókun Ingólfs á Þjóðhátíð 2021. Barst Sindra fjöldi frásagna frá nafngreindum einstaklingum þar sem lýst var opinberlega hvernig Ingólfur hefði leitað eftir nánari kynnum við stúlkur á grunnskólaaldri. 

Hafi í frásögnunum m.a. komið fram að hætt hefði verið við að bóka Ingólf á skemmtanir í félagsmiðstöðvum á vegum Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur þar sem hann hefði verið að bjóðast til að skutla nemendum heim. Þá var þar einnig að finna frásagnir undir nafni um að stefnandi hefði annaðhvort átt eða leitað eftir kynferðislegum samskiptum við stúlkur á aldrinum 14 til 15 ára. 

„Með vísan til þessara frásagna, sem allar voru birtar opinberlega og undir nafni, um að stefnandi hefði ítrekað leitað eftir nánari kynnum við stúlkur á aldrinum 14 til 15 ára verður að telja að stefndi hafi leitt nægilegar líkur að því að ummælin sem kröfur stefnanda í liðum 1 til 5 lúta að hafi verið réttlætanleg og að hann hafi verið í góðri trú um að þau væru sönn,“ segir í dómi héraðsdóms. 

Ekki brot gegn stjórnarskrá 

Dómurinn taldi jafnframt vert að hafa í huga að ummæli Sindra hafi verið látin falla í skoðanaskiptum um brýnt samfélagslegt málefni, sem lúti að því hvaða ábyrgð þjóðþekktir og frægir einstaklingar skuli bera á háttsemi eins og að nýta áhrif sín og samfélagsstöðu til að eiga kynferðislegt samneyti við unga og óharðnaða einstaklinga. 

Þá taldi héraðsdómur jafnframt að mynd sem Sindri birti af Ingólfi að skemmta í samkvæmi fæli ekki í sér brot gegn stjórnarskrárvarinni friðhelgi einkalífs Ingólfs. Verði að hafa í huga að Ingólfur sé þjóðþekktur auk þess sem myndin hafi verið sett fram í tengslum við ummæli Sindra og gagnrýni hans á forystu KSÍ vegna annars máls í þjóðfélagsumræðunni. 

Héraðsdómur horfið ekki einungis til efnis ummæla Sindra, heldur einnig til samhengis þeirra og þess af hvaða tilefni þau voru sett fram. Taldi dómurinn að játa yrði Sindra rúmt frelsi til tjáningar um þetta tiltekna málefni og var ekki dregið í efa að ummæli hans „þótt óvægin séu,“ voru framlag til opinberrar umræðu um málefni sem getur varðað samfélagið miklu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert