Nú hægt að hoppa um allan bæ

Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir framkvæmdastjóri Hopp með nýrri gerð Hopp-hjóla.
Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir framkvæmdastjóri Hopp með nýrri gerð Hopp-hjóla. Ljósmynd/Aðsend

Hopp hefur fært út kvíarnar og stækkaði þjónustusvæði sitt á þriðjudaginn. Það nær nú yfir allt höfuðborgarsvæðið. Opnaði fyrirtækið þá í Árbæ, Grafarvogi og Grafarholti og stækkar svæðið út í öll hverfi í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði. Nær þjónustusvæðið nú yfir 70 ferkílómetra. 

Hægt að hoppa frá Völlunum yfir í Gufunes

Nú er hægt að taka rafskútu frá Hopp eða svokallað Hopp-hjól og hoppa út um allan bæ en það hefur kallast að hoppa að fara á Hopp-hjóli frá einum stað yfir á annan. Til dæmis er nú hægt að hoppa frá Völlunum í Hafnarfirði yfir í Gufunes eða frá Grafarholti til Seltjarnarness.

Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Hopp, segir í samtali við mbl.is að notendur hafi strax tekið eftir þessu og að jákvæðum skilaboðum hafi rignt yfir þau síðustu daga. 

„Við erum stoltust af því að geta gert grænar samgöngur betri og aðgengilegri í Reykjavík,“ segir Sæunn en Hopp stækkar á fleiri stöðum en Reykjavík. 

Frá og með deginum í dag verður hægt að nálgast Hopp-hjól á Vík, Húsavík, Höfn, Blönduósi og Ísafirði. Einnig eru Akureyri, Vestmannaeyjar,  Akranes, Borgarnes, Reykjanesbær og Grindavík að uppfæra flotana sína og fá inn næstu kynslóð af rafskútum.

Hér má sjá skjáskot úr smáforriti Hopp sem sýnir stærð …
Hér má sjá skjáskot úr smáforriti Hopp sem sýnir stærð þjónustusvæðisins. mbl.is/Skjáskot

Nýjar rafskútur

Þá fagnar Sæunn því einnig að ný kynslóð rafskúta sé nú lent hjá Hopp í Reykjavík. Nýju rafskúturnar þurfa minna viðhalda að sögn Sæunnar og hafa betri jafnvægispunkt. Spurð hvort að betri jafnvægispunktur muni skila sér í færri slysum segist Sæunn vona það en að líklegast þurfi meira til en betri jafnvægispunkt til að koma í veg fyrir slysin.

„Jafnvægispunktur einn og sér mun ekki taka fyrir hendurnar á þeim sem fara á skúturnar ekki í ástandi til að valda þeim. Það skiptir okkur miklu máli að notendur okkar séu öruggir,“ segir Sæunn og bætir við að flest slys verði þegar fólk fer of hratt eða sé undir áhrifum áfengis.

Aðspurð segir hún þurfa vitundarvakningu hjá fólki hvað varðar öryggi á rafskútum.

Þá segir hún að starfsemi Hopp snúist ekki endilega um magn heldur gæði. „Það er mikilvægt að við vöndum okkur sem þjónustuaðili en rafskútan þarf líka meira pláss í borginni. Þá er mikilvægt að notendur gangi vel frá þeim og hugi að öryggi.“

Bætir hún við að mikill munur sé á útliti nýju rafskútanna. Nýju rafskúturnar eru breiðari og með sveigðara stýri að sögn Sæunnar. En nýju rafskúturnar er hægt að sjá á mynd hér fyrir neðan. 

Hér er hægt að sjá nýja gerð rafskútna Hopp sem …
Hér er hægt að sjá nýja gerð rafskútna Hopp sem að fyrirtækið tekur í notkun í dag. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert