„Eldheit innrás Íslendinga í þýskt leikhús“

Ebba Katrín Finnsdóttir og Oddur Júlíusson fara á kostum í …
Ebba Katrín Finnsdóttir og Oddur Júlíusson fara á kostum í sýningunni. Þau trúlofuðu sig í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er það umfangsmesta sem ég hef tekið þátt í og þegar að mest er eru um 150 manns á sviðinu, þetta er alveg klikkað,“ segir Ebba Katrín Finnsdóttir leikkona í samtali við mbl.is um nýtt leikverk í leikstjórn Þorleifs Arnars Arnarssonar sem hún leikur í.

Verkið heitir Temple Of Alternative Histories og var frumsýnt í Staatstheater í Kassel í Þýskalandi 9. júlí. Sýningin er unnin í samstarfi við Þjóðleikhúsið.

24. júlí er lokasýning verksins og Ebba hvetur fólk til að drífa sig að sjá þessa sýningu sem hún lýsir sem þrekvirki.

Þetta er í annað sinn sem hún og Þorleifur sameina krafta sína en hún lék Júlíu í uppsetningu Þorleifs á Rómeó og Júlíu í Þjóðleikhúsinu síðasta haust. 

Með unnustanum í verki

Oddur Júlíusson leikari leikur á móti Ebbu í sýningunni en þau trúlofuðu sig á síðasta ári. Hún segir það frábært að leika með unnusta sínum í sýningunni eins og svo oft áður. Hún bætir þó við að örlítill misskilningur hafi orðið á milli þeirra og Þjóðverjanna.

„Þjóðverjarnir vissu ekki að við værum par þegar við komum og vorum við því sett í sitthvort einstaklings herbergið með einum litlum bedda. Það má segja að við séum aftur komin í smá unglinga stemmingu.“

Ebba segir það vera nýja upplifun að fá að vera erlendis með kærastanum og vinna á sama tíma, sem að hennar sögn er vel nýtt sumarfrí.

Ebba Katrín Finnsdóttir í verkinu í endurunnum búning.
Ebba Katrín Finnsdóttir í verkinu í endurunnum búning. Ljósmynd/Aðsend

Íslendinga flóð

Hún segir það mjög áhugaverða upplifun að vinna í Þýskalandi þar sem að tungumálaörðugleikar geta þvælst fyrir vinnunni. 

„Það er fyndið að vera í verkefni þar sem þú skilur ekki alveg umræðuna allan tíman,“ segir Ebba og bætir við að æðruleysi hafi komið þeim að góðum notum í ferlinu.

Hún tekur fram að stressið hafi ekki jafn mikil áhrif á hana og Íslendingana, sem eru með henni í verkinu, þar sem að þau skilja ekki alltaf á hverju stressið byggist. 

Þó nokkrir Íslendingar taka þátt í gerð sýningarinnar en eins og áður var nefnt leikstýrir Þorleifur Örn verkinu. Anna Rún Tryggvadóttir er með innsetningu í anddyri leikhússins þar sem tvær íslenskar stelpur hjálpa til. Karen Briem og Andri Hrafn Unnarsson sjá um búningahönnun og tryggja sjálfbærni fatnaðarins. Allir búningarnir á sviðinu er endurunnir til að gæta áhrifa á umhverfið.

Ebba segir Íslendingana vera áberandi í vinnunni að verkinu. „Eldheit innrás Íslendinga í þýskt leikhús,“ segir hún kímin. Ebba bætir við að hún hafi fengið fínustu þýskukennslu úr ferlinu. 

„Ég fer með þýskan texta í lok verksins og þau eru með tungumálakennara fyrir mig hérna svo ég er búin að vera fara í þýskukennslu. Þetta er í rauninni eins og tungumálaskóli fyrir okkur,“ segir Ebba og bætir við að hún og Oddur séu orðin nokkuð sleip í þýskunni. 

Ebba segir að þegar að mest er eru um 150 …
Ebba segir að þegar að mest er eru um 150 manns á sviðinu. Ljósmynd/Aðsend

150 manns á sviðinu

Hún segir þetta umfangsmestu sýningu sem hún hefur tekið þátt í á ferlinum sínum hingað til. Óperusöngvarar, sinfóníuhljómsveit, karla-, kvenna- og barnakór, dansarar og leikarar sameina krafta sína í verkinu og segir Ebba um 150 manns koma saman á sviðinu þegar mest er, til að bjóða upp á rosalega upplifun. 

Þó að þetta sé umfangsmesta sýning Ebbu segir hún það að íslenska leikhúsinu ólöstuðu. 

„Það er gaman að sjá hvað við stöndum framarlega með íslenskt leikhús. Mér finnst við ekki gefa þeim neitt eftir sem eru hérna úti.“ 

Ísland spilar lykilhlutverk í sýningunni en að sögn Ebbu veltir sýningin upp þeim fjölmörgu flækjustigum milli náttúru og menningar þar sem Niflungahringur Wagners og norræn goðafræði með tilliti til ljóðasafns Eddunnar liggur til grundvallar.

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert