„Alveg þess virði að hafa smá áhyggjur“

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands.
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þor­vald­ur Þórðar­son, pró­fess­or í eld­fjalla­fræði við Há­skóla Íslands, segir í samtali við mbl.is að það sé „alveg þess virði að hafa smá áhyggjur“ af skjálftahrinunni sem gengur nú yfir á Reykjanesskaga. 

Hann segir þó að skjálftarnir virðist enn vera á frekar miklu dýpi, fyrir neðan fjóra kílómetra, og hluti af þeim vera jafnvel á enn meira dýpi. 

Þorvaldur segir að skjálftinn sem var 4,4 að stærð rétt fyrir klukkan fimm hafi mögulega verið að opna leið fyrir kviku til yfirborðs, „maður veit aldrei“.

Inntur eftir því hvenær sé kominn tími til að hafa áhyggjur segir Þorvaldur kíminn að það verði þegar Veðurstofan láti menn vita.

„Við vitum ekkert á hvorn veginn þetta fer. Það er alveg hugsanlegt að það sé að koma þarna einhver kvika inn í skorpuna. Þetta gæti líka bara verið tektonískar hreyfingar,“ segir hann og bætir við að ekki sé um að ræða kvikuhlaup, þ.e.a.s. að bergkvika streymi um sprungur neðanjarðar.

„En þetta er þó ansi aflmikil skjálftahrina og hún gæti alveg verið fyrirboði goss en hún gæti líka bara stoppað og ekkert frekar gerist.“

Gos kæmi líklega ekki upp úr sama gígnum

Þorvaldur segir að ekkert bendi til þess að ef eldgos myndi hefjast að kvikan kæmi upp í sama gíg og eldgosið sem var við Fagradalsfjall í fyrra. 

„Ég myndi nú halda að það myndi myndast nýtt gos rétt við, því að það er kvika sem situr í gömlu gosrásinni og hún er farin að kólna og stífna. Þannig að eins og staðan er í dag er mun erfiðara fyrir kvikuna að koma þar upp heldur en að finna sér leið um einhverjar aðrar sprungur.“

Hann segist ekki hafa orðið var við aukna afgösun í gígnum. 

„Það er erfitt að tala um aukna afgösun þegar hann er kulnaður en ef það er gas að koma þarna upp þá er það hugsanlega að koma upp um einhverjar sprungur og það er alveg möguleiki að það gerist.“

Þorvaldur segir að þá væri líklegast að um koltvísýring að ræða sem kæmi úr sprungum á meira en sex kílómetra dýpi. 

Ef að hins vegar brennisteinn kæmi upp úr sprungum þá væri kvika næstum því komin upp undir yfirborðið. 

„Ég held að það sé ekkert sem bendi til þess í augnablikinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert