Greinileg aflögun vegna gangainnskots

Fyrir miðri mynd má sjá stærra merkið sem er vegna …
Fyrir miðri mynd má sjá stærra merkið sem er vegna gangainnskotsins sjálfs en suðvestan við það, í grennd við Grindavík, má sjá nákvæma staðsetningu stóra skjálftans á sunnudagskvöldið. Kort/Adriano Nobile

„Myndin sýnir svokallaða aflögun sem fylgir sprunguhreyfingum og þegar að kvika er að setjast fyrir í jarðskorpunni þá er hún að ryðja sér til rúms og ýtir í rauninni berginu til hliðanna og býr til aflögun sem getur verið þó nokkuð margir sentímetrar,“ segir Sigurjón Jónsson, prófessor í jarðeðlisfræði við King Abdullah tækniháskólann (KAUST) í Sádi-Arabíu.

Myndin, sem var birt af Adriano Nobile, rannsóknarvísindamanni við KAUST, sýnir aflögunina frá 20. júlí þar til klukkan sjö í gærkvöldi eða áður en að skjálftahrinan byrjaði seint í gærkvöldi. Áhrif skjálftanna við Kleifarvatn sjást því ekki.

Á myndinni má aðallega sjá tvö stór merki. Stærra merkið er vegna gangainnskotsins sjálfs en hitt sýnir nákvæma staðsetningu skjálftans á sunnudagskvöldið, sem er sá stærsti í hrinunni til þessa og mældist 5,4 að stærð.

Merkið mjög nálægt gosstöðvunum

Hann bendir á að stærra merkið sé mjög nálægt gosstöðvunum sjálfum en örlítið norðaustan við gosstöðvarnar í átt að Keili.

„Þetta er mjög áþekkt því sem var að gerast í febrúar og mars, fyrir gosið í fyrra, og mun öflugari hrina heldur en var í desember sem leiddi ekki til goss,“ segir Sigurjón.

„Þetta er alveg greinilega aflögun vegna gangainnskots. Það eru ekki nýjar fréttir en við sjáum núna nákvæmlega hvar það er og það passar alveg við skjálftavirknina sem er búin að vera síðustu daga vegna gangsins sjálfs.“

Til samanburðar má hér sjá kort af Reykjanesskaganum. Búið er …
Til samanburðar má hér sjá kort af Reykjanesskaganum. Búið er að merkja Grindavík á kortið en norðaustan við það átti skjálftinn á sunnudagskvöldið sér stað Kort/Map.is

Stóru skjálftarnir ekki í gangainnskotinu

Sigurjón bendir þó á að þar séu ekki stærstu skjálftarnir, gikkskjálftarnir, heldur séu þeir fyrst og fremst að eiga sér stað suðvestan við gangainnskotið í grennd við Grindavík. Einnig eigi þeir sér stað norðaustan við innskotið, líkt og skjálftahrinan í nótt.

„Hún var nærri Kleifarvatni og fannst þess vegna hressilega við Reykjavík því hún var svo mikið nær en margir hinna skjálftanna.“

Minna merkið sýnir, eins og áður segir, greinileg áhrif skjálftans á sunnudagskvöldið.

„Það er fyrir norðan og norðaustan Grindavík mjög nálægt Svartsengi og Bláa lóninu. Það sést þarna nákvæmlega hvar þessi skjálfti hefur átt sér stað og við sjáum á myndinni sprunguhreyfingunni í þessum skjálfta,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert