„Dauðafæri“ að losa um 100 milljarða

Bjarni Benediktsson á Alþingi.
Bjarni Benediktsson á Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir það augljóst að ríkissjóður þurfi að selja allan hlut sinn í Íslandsbanka og vill að þeir 100 milljarðar sem fást úr því fari að mestu leyti í að efla innviði.

Í svari við spurningu Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata, um hvort það eigi „í alvörunni” að selja afganginn á hlut ríkisins á Íslandsbanka á næsta ári þegar ekki er vitað hver afdrif síðustu sölu voru. Átti hann þar við fyrirhugaða skýrslu Ríkisendurskoðunar þess efnis.

Bjarni sagði engar ákvarðanir verða teknar um sölu fyrr en fyrirkomulagið varðandi sölu bankans hafi verið endurskoðað og skýrslan hafi litið dagsins ljós.  

Sagðist Bjarni ekki ætla að láta neinn segja sér hvað honum eigi að finnast um hvort ríkið eigi að selja Íslandsbanka eða ekki. Hann sagði samkeppnismarkað í gangi og að ríkið eigi ekki hlutverki að gegna þar.

Tveir valkostir í boði

„Það er dauðafæri að losa um rúmlega 100 milljarða eignahlut í fjármálafyrirtæki,” sagði Bjarni og talaði um að peninginn væri hægt að nýta í hina ýmsu innviði, meðal annars í vegakerfið, öflugri hafnir og flutningskerfi fjarskipta og raforku. 

Hann sagði tvo valkosti vera í boði þegar kemur að eflingu innviða. Annað hvort að slá lán og láta framtíðarkynslóðir borga brúsann „eða einfaldlega að snúa eignum sem við höfum enga brýna þörf fyrir” í þessa framtíðaruppbyggingu fyrir landið.

„Fyrir mér er þetta augljóst, þetta þvælist fyrir öðrum.”

Björn Leví spurði Bjarna einnig hvort hann væri í fjárlagafrumvarpinu að gera aðhaldskröfu á sjúkrahús og svaraði hann því þannig að engin aðhaldakrafa væri gerð á rekstur Landspítalans eða á aðrar heilbrigðisstofnanir ríkisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert