„Hrikalegt að lesa athugasemdirnar sem ganga milli barna á samfélagsmiðlum“

María Rut Kristinsdóttir og Ingileif Friðriksdóttir.
María Rut Kristinsdóttir og Ingileif Friðriksdóttir.

Myndband frá Vottum Jehóva gengur nú eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla og hefur vakið mikla hneykslun, ekki síst vegna þess að skilaboðunum er beint til mjög ungra barna sem hafa engar forsendur til að meta þessar upplýsingar.

Í myndbandinu er sagt að ást geti ekki verið gild og samþykkt nema hún sé á milli karls og konu.

Enginn fæðist fordómafullur

Ingileif Friðriksdóttir hefur, ásamt konu sinni, Maríu Rut Kristinsdóttur, heimsótt skóla og kynnt málefni hinsegin fólks, auk þess sem þær halda úti Hinseginleikanum á Instagram. Hún segir að skilaboðin í myndbandi Votta Jehóva séu ömurleg innræting til ungra barna, því börnin fæðist ekki með fordóma, heldur læri þá heima hjá sér eða annars staðar. Hún segir að áhrif svona skilaboða á ung börn séu mikil.

Afleiðingarnar eru skömm og sjálfshatur

Í  færslu á Hinseginleikanum segir hún: 

Það er markvisst verið að búa til fordóma hjá litlum börnum. Börn fæðast ekki fordómafull, en þetta er sannarlega leið til að gera þau það. Börn fæðast hins vegar vissulega hinsegin, og eiga aldrei að þurfa að reyna að „breyta sér“ til að vera samþykkt. Þau eiga að fá að vera þau sjálf. Og svona innræting af hálfu hópsins sem þau fæðast inn í mun ekki gera neitt nema fylla þau skömm og sjálfshatri.“

Hatursfull orðræða aukist mikið

Mikið bakslag hefur verið í málefnum hinsegin fólks undanfarna mánuði og hafa komið upp nokkur mál sem sýna að fordómar og hatur hefur aukist, ekki síst meðal ungs fólks. Ingileif segir að hún og María hafa verið að uppfræða í skólum í sex ár og nánast allan þann tíma hafi þróunin verið góð.

„Ég var farin að hugsa að fljótlega þyrfti ekki þessa fræðslu lengur, því þetta gengi svo vel.“  Hins vegar hafi hún fundið mikinn mun fyrir einu og hálfu ári síðan og síðan hafi staðan farið versnandi. 

Aðgengi að samfélagsmiðlum hefur aldrei verið betra. Það getur vissulega …
Aðgengi að samfélagsmiðlum hefur aldrei verið betra. Það getur vissulega verið kostur en það er líka varhugavert þegar ung börn komast auðveldlega í snertingu við ofbeldisfullt og hatursfullt efni. Ljósmynd/Pexels/PhotoMIX

Detta ofan í „kanínuholu“ algóritmans

„Við erum farin að fá mun meira af óviðeigandi athugasemdum frá krökkunum og að þau hlæja að okkur,“ segir Ingileif og bætir við hún finni miklu harðari umræðu gagnvart bæði hinsegin fólki og fleiri jaðarhópum samfélagsins.“

„Það virðist vera eitthvert stef á samfélagsmiðlunum að hatast út í hinsegin fólk og börnin virðast vera komin inn á einhverjar villuslóðir þar," segir hún og bætir við að miðill eins og TikTok, sem er mjög vinsæll hjá börnum, sé drjúg uppspretta ofbeldis- og hatursefnis. 

„Þar sér maður líka hvað algóritminn á þessum miðlum er rosalegur. Börnin detta ofan í „kanínuholu“ endalauss efnis af sama toga og það myndast einhver tíska,“ segir hún og nefnir börnin á Íslandi sem geltu að samkynhneigðu pari fyrr á árinu. „Efni með svona gelti var víst úti um allt á TikTok og svo apa börnin þetta upp og það verður einhver töffaravæðing á svona fordómum og hatursorðræðu.“

Grafalvarlegar afleiðingar

Hún segir að það sé hrikalegt að lesa kommentin sem ganga á milli barna á samfélagsmiðlum þar sem þeim er kannski sagt að drepa sig eftir munnsöfnuð um hvað viðkomandi sé ógeðslegur og ömurlegur á allan hátt. „Ef ég hugsa til baka þá man ég ekki eftir að það hafi verið notaður jafn rosalegur munnsöfnuður og er í dag. Það er greinilega miklu auðveldara að skýla sér á bak við skjá heldur en að segja þetta augliti til auglitis.“

Ingileif segir að það sé ekki nóg að skólayfirvöld taki á svona málum heldur þurfi allt samfélagið að taka þennan slag. „Það er staðreynd að það er kominn mikill farvegur fyrir svona orðræðu,“ segir hún og bendir á að þessa harða umræða beinist ekki bara að hinsegin fólki heldur bara öllum sem á einhvern hátt skera sig úr, eins og sjá megi í umræðunum um unga stúlku í dag sem liggur nú á spítala vegna ofbeldis skólasystra sinna.

Fjögur hinsegin ungmenni tóku líf sitt

„Þetta eru grafalvarleg mál og ég veit til þess að það hafa minnst fjögur íslensk hinsegin ungmenni tekið sitt líf síðasta árið. Þetta er upp á líf og dauða.“

Hún segir að foreldrar þurfi líka að reyna að fylgjast með hvað börn þeirra eru að gera á samfélagsmiðlunum, því þau hafi oft enga hugmynd um hvað sé í gangi. „Því meira sem börnin sjá af svona efni, því eðlilegra verður ofbeldi eða hatur í þeirra huga.

Ingileif segir að nú sé boltinn hjá okkur öllum. „En ég segi samt að við verðum öll að taka á þessu saman og sýnileikinn og fræðsla eru enn bestu tækin sem við höfum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert