Landsliðskona dúxaði á tveimur og hálfu ári

Guðrún Edda útskrifaðist með einkunnina 9,87.
Guðrún Edda útskrifaðist með einkunnina 9,87. Ljósmynd/Aðsend

Guðrún Edda Min Harðardóttir útskrifaðist frá Flensborgarskólanum í Hafnarfirði með einkunnina 9,87 á stúdentsprófi á aðeins tveimur og hálfu ári.

Dúxinn segir lykilinn að árangrinum vera metnað, stöðugleika og þrautseigju.

„Ef eitthvað er krefjandi þá getur maður lagst yfir það og náð tökum á því, gefið sér smá tíma í stað þess að labba strax í burtu frá því,“ segir Guðrún Edda í samtali við mbl.is.

Æfir sex daga vikunnar í 3,5 klst.

Guðrún Edda er landsliðskona í áhaldafimleikum og æfir í u.þ.b. þrjár og hálfa klukkustund sex daga vikunnar. Hún segir það geta verið krefjandi að vera afrekskona í fimleikum og í fullu námi en að skipulagning sé mikilvæg.

Hún segir skólann hafa tekið tillit til þess þegar hún hefur farið í landsliðsverkefni.

„Þau taka mjög mikið tillit til landsliðsfólks en eins og til dæmis í fyrra fór ég á HM í október stuttu fyrir lokapróf. Þá fékk ég að taka prófin annaðhvort fyrir eða eftir ferðina. Þau sýndu mjög mikinn skilning þar sem ég er mjög þakklát fyrir,“ segir Guðrún Edda.

Stefnir á nám tengt heilbrigðis- eða raunvísindum

Fram undan eru spennandi tímar þar sem Guðrún Edda stefnir á nám tengt heilbrigðis- eða raunvísindum. Eftir áramót stefnir hún svo á að setja enn meiri kraft í fimleikana.

„Á meðan ég er á fullu í fimleikunum er ég á Íslandi en ég á eftir að kynna mér frekara nám erlendis betur. Eftir áramót get ég hugað vel að æfingunum, en ég hef stundum þurft að sleppa einstaka æfingum fyrir mikilvæg próf. Núna hef ég tíma til þess að einbeita mér vel að þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert