Gæta þarf sérstaklega að kjöllurum og svalarými

Mikill vatnselgur getur myndast á morgun en tryggja þarf að …
Mikill vatnselgur getur myndast á morgun en tryggja þarf að hreinsað sé vel frá niðurföllum og til þess að vatnið fái greiða leið. mbl.is/Eggert

Búast má við miklum hlýindum og úrkomu á morgun eftir kuldakast síðustu vikna. Við slíkar aðstæður getur myndast mikill vatnselgur sem er mikilvægt að fái greiða leið. Björk Viðarsdóttir, Framkvæmdastjóri tjónaþjónustu TM, segir að á dögum þar sem snögghlýnar eftir mikið frost séu það helst tjón sem verða þegar ekki nægilega vel er hreinsað frá niðurföllum.

Björk Viðarsdóttir, Framkvæmdastjóri tjónaþjónustu TM.
Björk Viðarsdóttir, Framkvæmdastjóri tjónaþjónustu TM. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta eru helst tjóns sem verða þegar fólk hreinsar ekki nægjanlega vel frá niðurföllum, sérstaklega á svölum, og stíflað vatn á greiða leið inn í hús. Talsverð tjón geta orðið í kjallararými húsa eða þegar þakrennur og niðurföll eru stífluð og vatn á ekki greiða leið af húsþökum. 

Snjór og klaki á það þá til að bráðna fyrst meðfram útvegg og ef vatnið fær ekki greiða leið í átt frá húsinu þá eru líkur á að það safnist saman og þrýstist inn í sprungur á veggjum. Þetta getur valdið heilmiklu og flóknu tjóni,“ segir Björk.

Vatnstjón vegna utanaðkomandi vatns ekki bætt

Hún bendir jafnframt á að að tryggingar bæti ekki vatnstjón sem verði vegna utanaðkomandi vatns frá svölum, frá þakrennum eða frárennslisleiðum þeirra. Það sé ábyrgð íbúa að hreinsað sé frá niðurföllum og að tryggja frárennslisleiðir vatns við eignir sínar. Þeir staðir sem nauðsynlegt er að hreinsa snjó, klaka og óhreinindi eru:

  • Niðurföll nærri húsum
  • Niðurföll og anddyri við kjallara
  • Þakrennur og niðurföll við þakrennur
  • Svalir og niðurföll frá svölum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert