Almenningur eigi rétt á að heyra afstöðu þingmanna

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir greinargerð setts ríkisendurskoðanda um málefni Lindarhvols hafa átt að birtast fyrr. Þá sé mikilvægt að þing sé kallað saman vegna málsins því almenningur eigi rétt á því að heyra afstöðu þingheims vegna þess.

„Það liggur fyrir að þessi fyrrverandi ríkisendurskoðandi og settur ríkisendurskoðandi í þessu máli telur tilefni til að senda þetta mál til ríkissaksóknara, sem mér skilst að sé búið að gerast. Í greinargerðinni þá er því haldið fram að ýmislegt hafi farið öðruvísi en átti að gera varðandi meðferð þessara eigna og bent á að sú meðferð hafi verið í algjöru ósamræmi við það sem lagt var upp með.

Þegar við þarna í mars 2016 sammæltumst um fyrirkomulag um hvernig farið yrði með þessar gríðarlega verðmætu eignir upp á hundruð milljarða króna sem slitabúin hefðu afhent, þá var algjört grundvallaratriði í því að það yrði gætt jafnræðis og gagnsæis. Það er að segja, það yrði ljóst hvernig farið yrði með hverja eign og allir sætu við sama borð. Þarna eru dregin fram rök fyrir því að sú hafi ekki verið raunin, að því marki að hann sendir þetta til ríkissaksóknara,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í samtali við mbl.is.

Umfangsmeira en Íslandsbankamálið

Hann segir þingmenn flokksins hafa barist fyrir því að greinargerðin yrði birt í fimm ár. Að minnsta kosti þrjú lögfræðiálit hafi verið sett fram, þar af eitt sem Miðflokkurinn hafi látið vinna sem snerist að því að greinargerðina ætti að birta.

„Alltaf komu nýjar og nýjar skýringar á því hvers vegna þetta væri ekki birt, því var frestað aftur og aftur. Jafnvel þó allir í forsætisnefnd nema þingforsetinn væru búin að samþykkja birtinguna og umboðsmaður Alþingis var búinn að gera athugasemdir við framsetningu fjármálaráðuneytisins á þessu og svo framvegis,“ segir Sigmundur.

Málið virðist umfangsmeira heldur en Íslandsbankamálið en Alþingi hafi þó tekið töluverðan tíma í það.

„Þess vegna teljum við tilefni til að þingið komi saman til þess að ræða það,“ segir Sigmundur.

Veit ekki hver skilyrðin voru

Spurður hvort hann sé hlynntur þeirri birtingarleið sem farin var af Pírötum segir hann að sjálfur hefði hann ekki kosið að fara þessa leið.

„Ég hefði ekki gert það með þessum hætti að minnsta kosti nema að ganga fyrst út frá því sem vísu að það væri heimilt en Sigurður hafði afhent þingmönnum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þetta. Á hvaða forsendum eða með hvaða skilyrðum það var gert veit ég ekki en ég sá fyrst fréttirnar um þetta þegar þær birtust í morgun í Viðskiptablaðinu. Þannig hvað varðar aðferð Píratana sem hafa nú svona sínar eigin aðferðir við meðferð gagna þá bara get ég ekki kveðið upp úr um það því ég veit ekki hvaða skilyrði, ef einhver, voru sett um meðferð gagnanna þegar þau voru afhent nefndinni,“ segir Sigmundur.

Tilgangurinn að komast til botns í málum

Hvað heldurðu að komi út úr því, verði þing kallað saman aftur?

„Tilgangur umræðu í þinginu á náttúrulega að vera sá að komast til botns í málum og  geta þá gert ráðstafanir í samræmi við tilefnið. Hvort sem að það eru frumvörp eða skýrslur eins og þessi sem var unnin fyrir Alþingi, það má ekki gleyma því, þetta var skýrsla sem var unnin fyrir Alþingi, að beiðni þess. Þegar að niðurstaðan er sú sem hún er og sá sem að vann skýrsluna að beiðni Alþingis telur það kalla á að málið sé sent til ríkissaksóknara og við erum búin að fara í gegnum öll þessi ár af tilraunum til þess að fela innihaldið, þá finnst mér bara rétt að þingið nái að ræða þetta sem fyrst,“ segir Sigmundur

Telur hann almenning eiga rétt á að heyra afstöðu þingmanna til málsins.

„Þetta er búið að vera mjög langt og strangt ferli til að fá fram upplýsingar sem að þingið sjálft bað um og upplýsingar sem skipta mjög verulegu máli. Það hvernig var farið með þessi miklu verðmæti sem að náttúrulega varða þessar stærstu efnahagsaðgerðir Íslandssögunnar, myndi ég segja, sem að við stóðum í á sínum tíma í ríkisstjórninni. Mér finnst að almenningur eigi rétt á upplýsingum um hvernig því var fylgt eftir og að heyra afstöðu þingmanna til þess,“ segir Sigmundur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert