Mildi að ekki fór verr

mbl.is/Kristinn Magnússon

Búið er að opna Kringlumýrarbraut á nýjan leik og fjarlægja þaðan vörubifreið og styrktarbrú eftir að bifreiðin ók á skilti sem þar voru.

Umferðaróhappið varð um hálftíuleytið í morgun og lauk aðgerðum á vettvangi um klukkutíma síðar.

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er ótrúlega fljótur tími til að hreinsa svona stóra og mikla styrktarbrú af veginum. Þetta hefur gengið vel fyrir sig,” segir Guðbrandur Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, spurður út í stöðu mála.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Að sögn Guðbrands virðist sem vörubílstjórinn hafi gleymt að setja pallinn niður með þeim afleiðingum að hann ók niður styrktarbrúna.

Svo virðist einnig sem hann hafi keyrt einhvern veg með pallinn uppi eftir að hann sturtaði úr honum vegna framkvæmda á nærliggjandi svæði.

„Einhver mistök hafa orðið þarna,” segir hann.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Bílstjórinn var einn í bílnum og sakaði hann ekki, ekki frekar en nokkurn annan sem var í nágrenninu. Heppilegt var, að sögn Guðbrands, að styrktarbrúin féll ekki öll niður á götuna þar sem bílar voru á ferð heldur fór hún að hluta til á vörubílinn.

„Það er mildi að ekki fór verr.”

mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðspurður segir hann að löglegar hæðir ökutækja með farmi séu 4,20 metrar, nema með sérstakri undanþágu frá Samgöngustofu, og yfirleitt séu nýleg umferðarmannvirki og styrktarbrýr 5,20 metrar að hæð.

Því miður gerist það af og til að tjón verði á umferðar- og styrktarbrúm vegna þess að pallur sem er uppi rekst í þær.

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert