Gögnum um 150 milljónir notenda Myfitnesspal stolið

Tölvuhakkarar komust yfir gögn sem tengjast 150 milljónum notenda Myfitnesspal.
Tölvuhakkarar komust yfir gögn sem tengjast 150 milljónum notenda Myfitnesspal.

Óprúttnir aðilar brutust nýverið inn í tölvukerfi Myfitnesspal-heilsuforritsins og stálu notendanöfnum, póstföngum og dulkóðuðum lykilorðum yfir 150 milljóna notenda. Forritið er í eigu íþróttavöruframleiðandans Under Armour og lækkuðu hlutabréf í fyrirtækinu nokkuð skarpt strax eftir tilkynningu fyrirtækisins um hvað hefði átt sér stað.

Fyrirtækið sendi tilkynningu á alla notendur forritsins þar sem greint er frá innbrotinu. Virðist vera sem innbrotið hafi átt sér stað í febrúar, en það komst ekki upp fyrr en í þessari viku. Segir fyrirtækið að engum kreditkortaupplýsingum eða upplýsingum um kennitölur (e. social security number) notenda hafi verið stolið.

Forritið er mjög vinsælt til að halda utan um mataræði og til að skrá niður líkamsrækt og hreyfingu. Getur fólk fylgst með hversu miklu það brennir á móti því hversu mikið það borðar og sett sér markmið þar um.

Stjórnendur fyrirtækisins segja að nú sé unnið með sérfræðingum í tölvuöryggi við að rannsaka innbrotið. Þá hafi lögreglu verið gert viðvart.

Eru notendur forritsins hvattir til þess að skipta um lykilorð strax.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert