Skotvís: „Sáttir við fyrsta skref“

Stjórn Skotvís, frá vinstri: Jón Víðir Hauksson, varaformaður. Bjarnþóra María …
Stjórn Skotvís, frá vinstri: Jón Víðir Hauksson, varaformaður. Bjarnþóra María Pálsdóttir, Einar Haraldsson, Ívar Pálsson, Áki Ármann Jónsson, formaður, Þórey Inga Helgadóttir og Jón Þór Víglundsson. Ljósmynd/SKOTVÍS

Mörgum veiðimanninum þóttu það stórtíðindi í gær þegar tilkynnt var fjölgun veiðidaga á rjúpu í haust. Áki Ármann Jónsson er formaður Skotvís sem hefur lagt mikla vinnu í að greina gögn vísindamanna um rjúpuna og meta stöðu stofnsins. Hvernig líst honum á þá niðurstöðu sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið kynnti í gær?

„Okkur líst mjög vel á þetta sem fyrsta skref til að fjölga veiðidögum. Rjúpnastofninn var jafn stór árið 1998 og þá voru veiðidagar 69 og ekkert sölubann. Í framhaldi af því ári fór stofninn í hefðbundna náttúrulega niðursveiflu og við höfum bent á að fjöldi sóknardaga skiptir í raun og veru ekki neinu máli.“

Þetta fyrirkomulag er sagt verða til þriggja ára nema breytingar verði. Hvernig túlkar þú það?

„Við lögðum þessa málamiðlun til í einungis eitt ár og veturinn yrði nýttur til að fara betur yfir heildarmyndina. Þar erum við sérstaklega að vísa til „adaptive harvest management“, sem er kerfi sem er notað víða erlendis til að hámarka afrakstur stofnsins án þess að stefna honum í neina hættu.“

Frá aldamótum hefur þróunin verið á einn veg og það er að fækka veiðidögum og leggja á veiðimenn meiri kvaðir. Undantekningin var í fyrra þegar veiðidögum var fjölgað úr tólf í fimmtán og einni helgi bætt við. Nú hefur verið ákveðið að fjölga dögum í 22 og standa veiðar allan nóvember með þeirri undatekningu að óheimillt er að veiða á miðvikudögum og fimmtudögum.

Skoðum fleiri kerfi í vetur

Áki Ármann bendir á að yfirgnæfandi meirihluti veiðimanna stundi veiðar í þrjá til fjóra daga á vertíð og því þyrfti í raun að fara með sóknardaga niður í tvo ef það ætti að hafa áhrif. „Við ætlum að nota veturinn til að skoða frekari veiðistjórnunaraðferðir. Þar eru margar aðferðir mögulegar. Til dæmis styðst Duck's Unlimited-félagsskapurinn í Bandaríkjunum við svokallað vængjakerfi. Þá eru veiðimenn með ákveðinn fjölda merkja sem segir til um fjölda fugla sem viðkomandi má veiða. Greitt er fyrir merkin og þeir fjármunir fara til rannsókna.“

Áki Ármann Jónsson segir mikla fjölgun félagsmanna síðasta árið merki …
Áki Ármann Jónsson segir mikla fjölgun félagsmanna síðasta árið merki um að skotveiðimenn átti sig á að þeir þurfa á öflugum hagsmunasamtökum að halda. Ljósmynd/Aðsend

En þetta eru umskipti þegar horft er tvo áratugi til baka.

„Jú, við lögðum í þetta gríðarlega vinnu og fór Arne Sólmundsson verkfræðingur þar fremstur í flokki, fórum yfir öll gögn og komumst að því að fjöldi leyfðra veiðidaga hafði engin áhrif á fjölda sóknardaga og lítil áhrif á fjölda veiddra fugla.“ Þegar Áki er spurður hversu miklu máli þessi vinna Skotvís hafi skipt segir hann ljóst að það sé 99,9%. „Þegar við vorum búin að leggja í þessa miklu greiningarvinnu var því ekki mótmælt og þá fór þessi bolti að rúlla. Við finnum líka fyrir því að skotveiðimenn eru að vakna til vitundar um að það er nauðsynlegt að eiga öflug hagsmunasamtök. Þegar ég tók við í febrúar á síðasta ári var fjöldi félagsmanna ríflega 1.100 en eru nú í dag 1.830 og fer fjölgandi.“

Umhverfisráðherra sem hlustar á rök

Áki segir gríðarlega mikilvægt að skotveiðimenn standi saman og gæti að sínum hagsmunum. „Það hefur sýnt sig erlendis að andstæðingum veiða hefur vaxið mjög ásmegin. Þar eru öll meðul notuð. Sum þeirra eru ekki góð og við höfum séð að það er beinlínis logið upp á veiðimenn til að koma á þá höggi. Síðan taka fjölmiðlar og áhrifavaldar á samskiptamiðlum boltann og því næst stjórnmálamenn. Þetta er vond og erfið þróun.“

Hann bendir til Brussel og segir að þar sem hver einn maður tali fyrir veiði og sjálfbærni séu þrjátíu aðrir sem vilji engar veiðar.

Þetta segir okkur að það er kannski enn merkilegra hvernig þessi niðurstaða náðist nú.

„Já og við höfum fengið fyrirspurn frá Evrópusamtökum skotveiðimanna um það hvernig okkur tókst að fá þessu framgengt. Þeir telja þetta nánast orðið ógerlegt í Evrópu í dag að snúa svona þróun við. En við erum heppnir að því leyti að núverandi umhverfisráðherra er víðsýnn og alltaf tilbúinn til að hlusta á rök. Því miður eru mörg lönd í Evrópu ekki eins heppin,“ sagði Áki Ármann Jónsson í samtali við Sporðaköst.

Fyrsti rjúpnadagur er 1. nóvember eða eftir rétt rúma tvo mánuði.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert