Hnúðlax víðar og í meira magni

Hnúðlaxaseiði fundust í þeim þremur ám þar sem gildrur voru …
Hnúðlaxaseiði fundust í þeim þremur ám þar sem gildrur voru settar niður. Botnsá, ármót Grímsár og Hvítár og Langá. Ljósmynd/GG

Teymi sérfræðinga frá ferskvatnssviði Hafrannsóknastofnunar ásamt fiskifræðingnum Michal Skora hafa undanfarna daga leitað hnúðlaxaseiða á þremur vatnasvæðum á Suðvesturhluta landsins. Um var að ræða Botnsá í Hvalfirði og ármót Hvítár og Grímsár í Borgarfirði og loks Langá á Mýrum. Skemmst er að segja frá því að hnúðlaxaseiði veiddust á öllum þremur svæðunum. „Þar sem við leituðum, þar fundum við seiði hnúðlaxins. Þannig að hann virðist vera útbreiddari en við héldum. Við höfum vissulega séð hann skráðan í veiðibækur og einnig séð hann í teljurum en það er ljóst að hann er útbreiddari en við héldum,“ sagði Guðni Guðbergsson sviðsstjóri hjá Hafrannsóknastofnun í samtali við Sporðaköst.

„Það var búið að ákveða fyrir einhverjum tveimur mánuðum hvenær Michal kæmi til okkar og þá með tækni og þekkingu sem við höfum ekki haft aðgang að. Ég taldi þetta nú svolítið blint skot að fara í þetta, en létum slag standa. Við fórum fyrst upp í Botnsá í Hvalfirði og viti menn þar fengum við í gildrurnar 570 hnúðlaxaseiði. Þetta er gönguseiði á leið til sjávar, og eru úr hrygningu síðasta haust og væntanlega fiskarnir sem munu ganga næsta sumar, ef þeir skila sér til baka,“ sagði Guðni Guðbergsson í samtali við Sporðaköst.

Gildrunar fönguðu fjögur hnúðlaxaseiði við ármót Hvítár og Grímsár. Guðni …
Gildrunar fönguðu fjögur hnúðlaxaseiði við ármót Hvítár og Grímsár. Guðni telur að þau geti enn átt eftir að ganga út. Ljósmynd/GG

Hann benti á að þeir höfðu ekki vitneskju um hvenær seiðin byrja að ganga niður og hvenær því ferli lýkur. Þá er ljóst að gildrurnar taka aldrei nema hluta af þeim fjölda sem er á ferðinni. „Það segir okkur að þau hafa verið býsna mörg seiðin sem voru þarna á ferðinni. Þetta var annað og meira heldur en að við bjuggumst við.“

Eitt af því sem Guðna fannst merkilegt við þær upplýsingar sem söfnuðust í Botnsá var að sjóbirtingsseiðin sem voru að ganga niður voru að éta hnúðlaxaseiðin. Þau síðarnefndu eru ótrúlega lítil. Nánast eins og prjónar og lengdin er rétt rúmir þrír sentímetrar og þau vega ekki nema tæpt gramm. Algeng lengd á þeim var 3,2 og 3,3 sentímetrar. Sjóbirtingsseiðin sem veiddust á sama stað og voru orðin silfruð og á leið til sjávar voru að mælast fimmtán til sextán sentímetrar. Til samanburðar eru laxaseiðin, þessu hefðbundnu, frá tíu og upp í fimmtán sentímetrar þegar þau ganga til sjávar. Meðaltalið liggur í kringum tólf sentímetrana og þau vigta um tólf grömm.

Hnúðlaxaseiði tilbúið til að ganga í sjó. Þetta seiði er …
Hnúðlaxaseiði tilbúið til að ganga í sjó. Þetta seiði er úr hrygningu síðastliðið haust og hefði komið sem til baka næsta sumar sem fullvaxinn hnúðlax. Þau eru ótrúlega smá miðað við sjóbirtings og laxaseiði. Ljósmynd/GG

„Við tókum eftir því að hnúðlaxaseiðin eru rosaleg aktív og mjög leitandi og það er vísbending um að þau séu klók að komast af í sínu umhverfi.“

Hvað fannst Michal Skora um þetta? Gat hann dregið einhverjar ályktanir?

„Í rauninni ekki. Hann var nýlega búinn að vera í Skotlandi og fór þar í tvær ár og veiddi hnúðlaxaseiði í þeim báðum. Það hafði verið vitað um hrygningu þar. Hann fékk einhver þrjátíu seiði í annarri og í kringum hundrað í hinni. En hann var alveg himinlifandi hvað við náðum miklu magni af gögnum í Botnsánni. Þessar rannsóknir halda áfram og við erum að skoða margt í þessu samhengi og einnig að bera það saman við fullorðnu hnúðlaxana sem við fengum senda í fyrra. Þá er verið að horfa til þess hvað hnúðlaxinn var að éta og hvenær. Þetta eru spennandi rannsóknir og geta gefið skýrari mynd af þessu öllu saman.“

Eftir að hafa lokið veiðum og gagnsöfnun í Botnsá var haldið með gildrurnar upp í Skugga, þar sem Grímsá sameinast Hvítá í Borgarfirði. Þar veiddust líka hnúðlaxaseiði. Reyndar voru þau ekki nema fjögur en möguleg skýring er að þar var töluvert kaldara og gæti verið að seiðin ættu eftir að ganga niður en þekkt er segir Guðni að þau fara til sjávar í hækkandi hitastigi.

Gildrurnar voru í Langá í tvo daga og samtals veiddust …
Gildrurnar voru í Langá í tvo daga og samtals veiddust þar 22 hnúðlaxaseiði. Guðni segir þetta gefa sterkar vísbendingar um að hnúðlaxinn sé víðar og í meira magni en talið var. Ljósmynd/GG

Loks var farið í Langá á Mýrum. „Það fengum við í fyrradag ellefu stykki og svo var aftur vitjað um í gær og þá fengum við aftur ellefu seiði. Nú erum við hættir þessari gagnasöfnun í bili. Þessar niðurstöður segja okkur að hnúðlaxaseiðin eru víðar en maður átti von á og í meira magni heldur en að ég hafði búist við, miðað við veiðitölur.“

En það er ljóst að víða hafa hnúðlaxar farið framhjá veiðimönnum. Þannig er staðfest að fimmtán hnúðlaxar fóru í fyrra í gegnum teljarann í Sjávarfossinum í Langá í fyrra en aðeins einn veiddist. „Það má draga þá ályktun af þessu að veiðitölurnar eru ekki að endurspegla hversu mikið gengur af hnúðlaxi, eins og þær gera með laxinn okkar og sjóbirtinginn.“

Það eru margar hliðar á þessari gríðarlegu aukningu á hnúðlaxi víða í Evrópu. Norðmenn í nyrstu héruðum Noregs hafa mikið lagt á sig til að reyna að útrýma hnúðlaxinum og lagt í það mikla fjármuni. Guðni hefur ekki trú á þeirri leið. „Ég horfði bara yfir vatnasviðið í Hvítá í gær og þetta væri ógerningur allavega hér og ég held að það sé ekki rétta leiðin.“

Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri hjá Hafrannsóknastofnun. Hann segir að mikil og …
Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri hjá Hafrannsóknastofnun. Hann segir að mikil og áhugaverð gögn hafi náðst á undanförnum dögum hvað varðar hnúðlax. Ljósmynd/Aðsend

Íslenska stjórnkerfið var ekki búið undir að ný tegund næði uggafestu á Íslandi. Þegar leita átti leyfa til að veiða hnúðlax í net í nokkrum ám reyndist ógerningur að veita til þess leyfi. „Bæði lög um stjórn fiskveiða og lög um lax- og silungsveiðar, tala bara um lax og lögin gera ekki ráð fyrir einhverjum öðrum laxategundum. Því var engin lögleg leið til þess að gefa leyfi fyrir því að menn færu að drepa hnúðlaxa. Þannig að þessi staða kallar á lagabreytingu.“

Guðni segir málið komið af stað í stjórnsýslunni og það hefur þegar verið haldinn fundur þar sem málið var rætt.

Hann telur að við eigum að vanda okkur í umræðunni um hnúðlax og forðast að nota stór lýsingaorð um uppgang þessarar nýju tegundar. Það geti hreinlega komið í bakið á okkur og leitt til álitshnekkis á þeim ám þar sem mikið verður hugsanlega af honum í framtíðinni. Guðni bendir líka á hvernig Rússar tala um hnúðlaxinn og segja hann hreina viðbót í sínum ám og skaði ekki aðra stofna.

Hnúðlax sem veiddist fyrr í fyrra í Hofsá í Vopnafirði. …
Hnúðlax sem veiddist fyrr í fyrra í Hofsá í Vopnafirði. Sumarið 2019 var hnúðax staðfestur í 74 ám á Íslandi. Tilkynningar fyrir 2021 eru komnar yfir sextíu og á eftir að fjölga. Ljósmynd/KF

„Einhvern veginn hallast ég að því að hnúðlaxaveiði gæti orðið eftirsótt í einhverjum ám sem í dag eru til þess að gera snauðar. Við getum horft til áa á Austurlandi sem margar hverjar fóstra sjóbleikju. Það gæti alveg orðið að einhverjir hefðu áhuga á að veiða hnúðlaxa og þar yrðu til einhver tækifæri og verðmæti. Ég ætla nú ekki að gerast mikill spámaður í þessu en þetta kæmi mér ekki á óvart.“

Að sama skapi segir Guðni að til sé búnaður sem geti við ákveðnar aðstæður flokkað hnúðlaxinn frá. Sérstaklega tiltekur hann ár sem eru með laxastiga neðarlega, eins og Langá og Selá svo einhverjar séu nefndar. „Þannig væri hægt að halda einhverjum ám hnúðlaxafríum, allavega fyrir ofan stigana ef menn vilja það.“

En ef þú ættir að draga saman þá vitneskju sem þið hafið aflað á síðustu dögum með þessum veiðum, hvernig myndi það hljóma?

„Þeir eru bæði víðar og í meira magni heldur en að við höfum talið. Það er bara þannig að þar sem maður leitar að þeim, þeir eru þar. Þannig að hnúðlaxinn er meira og minna kominn út um allt. Við vorum að taka saman að á árinu 2019 þá voru skráðir hnúðlaxar í 74 ám á Íslandi. Síðast þegar ég skoðaði gögnin fyrir 2021 þá var fjöldinn kominn yfir sextíu og eitthvað á eftir að bætast við. Þannig að þeir eru komnir hingað og út um allt.

Svo er það aftur milljón dollara spurningin. Hvers vegna er hnúðlaxinum að vegna svona vel í Atlantshafinu á með laxinn okkar á undir högg að sækja. Það er eitt af því sem menn eru að skoða núna.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert