Hagkaup opnar netverslun

Kristinn Magnússon

Hagkaup hefur nú opnað netverslun. Í boði verða um 1.400 vörutegundir þar sem einblínt er á að viðskiptavinir geti keypt helstu nauðsynjar til heimilisins. Pósturinn mun sjá um afhendingu pantana til þeirra sem kjósa að fá vörurnar sendar heim að dyrum innan höfuðborgarsvæðisins en einnig verður í boði að sækja pantanir í verslun Hagkaups í Smáralind. Sömuleiðis er stefnt að því að opna á þjónustuna á Akureyri á næstu dögum.

Með þessu hefur verslunarkeðjan því endurvakið netverslun sína en Hagkaup byrjaði með verslun á netinu árið 1998 sem var á þeim tíma fyrst sinnar tegundar hér á landi.

„Við hjá Hagkaup erum virkilega ánægð að geta nú boðið viðskiptavinum okkar upp á þennan valkost. Þannig getum við svarað kalli eftir slíkri þjónustu á tímum þar sem það er ekki á allra færi að mæta í matvöruverslun. Okkar markmið verður að koma vörum hratt og örugglega til viðskiptavina. Til að svo geti orðið leggjum við í upphafi áherslu á einfaldleika í vöruúrvali. Þegar líður á munum við endurmeta vöruúrval netverslunarinnar og hlusta á óskir og ábendingar viðskiptavina eftir fremsta megni,“ segir Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups.

Hægt verður að nýta sér þjónustu netverslunar Hagkaups alla virka daga og laugardaga. Á allar pantanir bætist umbúða- og tiltektargjald að upphæð 490 krónur, óháð fjölda vara sem pantaðar eru. Óski viðskiptavinur eftir því að fá pöntun sína senda heim er gjaldið 1.490 krónur. Viðskiptavinir geta einnig sótt vörurnar í verslun Hagkaups í Smáralind.

Netverslun Hagkaups er aðgengileg á slóðinni hagkaup.is.

Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups.
Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert