„Breyttu þér áður en þú breytir heiminum“

Dagný Berglind Gísladóttir framkvæmdastýra Gló nýtur þess að vera í …
Dagný Berglind Gísladóttir framkvæmdastýra Gló nýtur þess að vera í fæðingarorlofi þessa dagana. mbl.is/Hallur Karlsson

Dagný Berglind Gísladóttir er framkvæmdastýra Gló og annar stofnandi Rvk Ritual sem er vettvangur fyrir alla hluti tengda sjálfsumhyggju og vellíðan. Dagný varð á dögunum móðir í fyrsta sinn sem hefur gjörbreytt viðhorfi hennar til lífsins að eigin sögn. Hún segir orlofið með nýju barni dásamlegt þótt dagarnir séu öðruvísi en hún er vön. Hún hefur trú á því að halda í hefðir og vill nýta hvert augnablik lífsins til að lifa í núinu. 

Hvernig er að vera í fæðingarorlofi?

„Það er dásamlegt og mjög kómískt. Ég er oftast með úfið hárið að reyna að æfa mig í að gera hluti með annarri hendi (með barnið í hinni). Ég vissi ekkert hvernig ég myndi bregðast við þessari breytingu enda vön að vera í fullu fjöri frá morgni til kvölds en gullmolinn Börkur Atlas hefur hægt verulega á mér og við erum að njóta okkar saman í hversdeginum.“

Ertu í draumastarfinu?

„Já, ég myndi segja það. Þetta er fjölbreytt, skapandi og krefjandi starf. Ég ákvað ung að vinna aðeins fyrir fyrirtæki sem ég hefði trú á og væru samfélagslega ábyrg og hef getað staðið við það. Ég hef lengi unnið fyrir Gló meðfram öðru og sinnt hinum ýmsu störfum innan fyrirtækisins. Svo ég þekki það inn og út og hef ástríðu fyrir markmiðinu. Ég hef einnig verið viðskiptavinur Gló frá upphafi enda Solla best í að búa til bragðgóðan heilsusamlegan mat. Áður en ég tók við sem framkvæmdastjóri Gló var ég um tíma markaðsstjóri og rekstrarstjóri. En ég byrjaði fyrst í afgreiðslunni á Gló fyrir að ég held tíu árum.“

Hvað getur þú sagt mér um dagskrá dagsins?

„Barnaorlofsdagarnir eru 100% flæði og fara eftir þörfum barnsins. Þegar sonur minn er sofandi þá nýti ég tímann til að gera smávegis jóga, brugga jurtadrykki og skrifa greinar á Rvk Ritual. En hefðbundinn dagur þegar ég er ekki í orlofi er mun skipulagðari. Þá vakna ég snemma en er oftast lengi fram úr. Ég byrja á að fara yfir daginn í huganum og hugleiði þegar ég get á morgnana, annars fær það að bíða þar til seinna um daginn. Næst fæ ég mér stórt vatnsglas eða jurtablöndu áður en ég dríf mig af stað á Gló-barinn í Fákafeni þar sem ég fæ mér alltaf það sama; gómsæta græna morgunverðaskál, orkuskot og matcha latte. Vinnudagarnir eru mjög fjölbreyttir. Ég byrja flesta daga á fundum með mínu dásamlega starfsfólki eða samstarfsaðilum. Síðan fer ég yfir verkefni dagsins sem eru af ýmsum toga; að opna nýjan stað, þróa áfram matarhugmyndir með Sollu, gera skýrslur eða leysa vandamál svo dæmi séu tekin. Mér finnst líka gott að taka reglulega tíma á gólfinu á Gló-stöðunum, þar fæ ég mínar bestu hugmyndir þegar ég fer sjálf og afgreiði viðskiptavini, þríf borðin og vaska upp! Ég vinn oftast lengi þar sem mér finnst gott að fá tíma ein á skrifstofunni þegar allir aðrir eru farnir heim og taka aðeins stöðuna í friði og ró. Þegar heim er komið, fer ég oftast beint í heitt magnesíum bað með ilmkjarnaolíum, þá geri ég smá jóga í stofunni og fer svo að pæla í kvöldmat fyrir mig og unnustann. Við förum oftast snemma í rúmið ef það kemur engin í heimsókn og ég nýti kvöldin í að lesa, hlusta á podköst og skipuleggja næsta dag.“

Eru hefðir mikilvægar í þínum huga?

„Já, ég hef laðast að hinum ýmsu hefðum frá því að ég var unglingur og las fyrstu andlegu bókina. Með hefðum meina ég reglulegar athafnir fylltar af ásetningi. Með þeim rækta ég dýpri tengingu við mig sjálfa og umhverfi mitt.

Ég hef oftast nóg að gera en vil alls ekki búa til líf þar sem kulnun er alltaf handan við hornið. Að gera „serimóníu“ úr daglegum hlutum eins og að fá mér tebolla eða fara í bað hægir á mér og færir mig í núið. Svo brugga ég kakó, legg tarrot-spil, bý til keramik og geri alls kon­ar skemmti­legar hefðir sem gefa lit í lífið. Ég tel að heilbrigðið sé að finna þegar ég næ að rækta líkama, huga og sál, en næ þó sjaldnast að halda jafnvægi á því.“

Dagný segir áhugavert að rækta dýpri tengingu við sjálfa sig …
Dagný segir áhugavert að rækta dýpri tengingu við sjálfa sig og umhverfi sitt. mbl.is/Hallur Karlsson

Hver var hugmyndin á bak við Rvk Ritual?

„Við Eva Dögg samstarfskona mín vildum búa til fallegan vellíðunarvef sem setur fram umfjallanir um líkamlega og andlega heilsu með fagurfræði í fyrirrúmi, sem okkur hefur oft fundist vanta. En við erum fagurkerar sem hugsum á sama tíma um heilsuna og umhverfið. Okkur langaði einnig að þetta væri vettvangur fyrir allt tengt sjálfsumhyggju og vellíðan sem gæti þjónað fleirum en bara Íslendingum og þess vegna er hann á ensku. Rvk Ritual hefur svo þróast í að vera einnig vefverslun og svo höldum við reglulega viðburði og fyrirlestra.“

Hvert er besta ráð sem þú hefur fengið?

„Breyttu þér áður en þú breytir heiminum.“

En það versta?

„Lærðu eitthvað praktískt.“

Hefurðu sótt námskeið sem breytti lífinu þínu?

„Já reyndar. Það var indverskur jógakennari í Ármúlanum sem kenndi minn fyrsta jógatíma þegar ég var 14 ára og fannst allt svo flókið. Þar var hugleitt í lok tímans og þar fann ég fyrst töfrana sem gerast þegar maður situr í hljóði með sjálfum sér.“

Hvaða bók lastu síðast?

„Ég les mikið og er oftast að lesa fleiri en eina bók í einu. En núna er það Newborn mothers og RIE-uppeldisbók sem heitir Elevating Child Care.“

Gerir þú áramótaheit eða lifir í flæðinu?

„Ég elska áramótin. Finnst þau tákna nýja byrjun og er mikið fyrir að taka stöðuna á þeim tíma og sjá fyrir mér árið fram undan.“  

Í hvernig ferli ertu í lífinu?

„Ég er í umbreytingarferli þar sem móðurhlutverkið er í aðalhlutverki. Mér finnst lífið hafa hingað til verið mismunandi tímabil, þar sem sum hafa snúist um að ferðast um heiminn, önnur í uppbyggingartímabil þar sem nám og vinna er í forgangi.

Ætli næsta tímabil verði ekki að finna út úr því hvernig ég get verið góð móðir, unnið við og skapað eitthvað fallegt og átt ótrúlega skemmtilegt líf sem veldur sem minnstu kolefnisfótspori.“

Hver er tilgangur lífsins að þínu mati?

„Að elska og reyna að gera smá gagn.“

Hvernig er að ala upp börn á Íslandi?

„Ég hef akkúrat sjö vikna reynslu af því og hingað til er það bara stórgott! Ég er sérstaklega þakklát fyrir þær frábæru ljósmæður sem ég hef kynnst í þessu ferli.“

Áttu eitthvað þér æðra?

„Já, ég trúi svo sannarlega á eitthvað æðra, skilgreini það ekkert frekar sjálf en hef samt ekkert á móti hinum ýmsu skilgreiningum á því.“

Hvað er gott samband að þínu mati?

„Skilningur, samvinna, vinátta og ást.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál