Þorramatur er alls engin óhollusta

Lukka Pálsdóttir.
Lukka Pálsdóttir.

Lukka Pálsdóttir, eigandi Happs, segir að vegna góðgerla í súrsuðum mat sem borinn er fram á þorrablótum sé hann alls ekki óhollur. 

„Nokkur ár í röð fór ég á þorrablót Stjörnunnar í Garðabæ og alltaf var þessi fíni matur á borðum frá konungi þorrans, Jóa í Múlakaffi. Mér þykja sviðin góð, sérstaklega tungan en borða líka sviðasultu, blóðmör, lifrarpylsu, síld og rófustöppu. Ég smakka líka á súrmatnum svo sem hvalrengi og hrútspungum meira fyrir stemninguna en bragðið en held að ég sé um það bil eini Íslendingurinn sem getur alls ekki sett harðfisk inn fyrir sínar varir. Á þorrablótum hitti ég ávallt gamla og góða vini og einhvern veginn skapar stemningin svo mikla afslöppun og gleði að hláturinn og vinskapurinn er ekki síður nærandi en maturinn,“ segir Lukka.

Hver er hollasti kosturinn á þorrablótinu?

„Hinn hefðbundni þorramatur er alls engin óhollusta. Hann passar reyndar vel inn í nýjasta æðið sem er háfitu/lágkolvetnamataræði eða ketósumataræði. Þorramatur eins og til dæmis slátrið inniheldur þar að auki innmat sem við mættum gjarnan borða meira af. Súrsun er gömul aðferð til að auka geymsluþol matvæla en hún felur í sér að auka góðgerla í matnum og það er eitthvað sem við mættum nýta okkur betur nú til dags því góðgerlarnir styðja við góða meltingarflóru okkar. Súri þorramaturinn er því hollari en margt sem er algengara á borðum landsmanna svo sem kleinuhringir og pitsur. Ef það væri eitthvað sem ég myndi vilja bæta í þorramatinn þá væri það súrsað grænmeti. Súrsaðar gulrætur og hvítkál myndu passa vel með og bæta trefjum í annars ágæta og holla máltíð.“

Hvað myndir þú aldrei borða af heilsufarsástæðum?

„Aldrei er mjög sterkt orð en það sem ég borða svo til aldrei eða afar sjaldan...og af heilsufarsástæðum frekar en matvendni er til dæmis morgunkorn og sætabrauð eins og kleinuhringir og kex. Mér finnst mjög auðvelt að sleppa þessum vörum og ég borða held ég aldrei ódýrt og næringarlítið brauð. Núorðið er viðbættur sykur sjaldséður á mínu heimili og ég vanda valið vel þegar kemur að sætindum en ég er þó afar veik fyrir góðu súkkulaði og súkkulaðirúsínum sem fá því að slæðast inn oftar en mig langar til að viðurkenna. En hver vill vera fullkominn og súkkulaði gerir lífið einfaldlega betra!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál