„Ótrúlega sorglegt að svona klár maður gefi sig ekki að umræðunni“

Unnur Gísladóttir er gestur hlaðvarpsins Karlmennskunnar.
Unnur Gísladóttir er gestur hlaðvarpsins Karlmennskunnar.

„Það er erfitt fyrir mig að kjarna gagnrýni á Jordan Peterson, því hún er marglaga, en ef ég ætti að gera það þá er það vanhæfni hans til að setja sig í spor jaðarsettra hópa eða kvenna,“ segir Unnur Gísladóttir mannfræðingur og framhaldsskólakennari í nýjasta hlaðvarpsþætti Karlmennskunnar.

Tilefnið er fyrirlestur kanadíska sálfræðiprófessorsins Jordan Peterson í Háskólabíó um liðna helgi. Unnur hefur lesið allar bækur Jordans Petersons og líklega innbyrt meira efni eftir hann heldur en margur aðdáandinn.

Unnur er hins vegar lítill aðdáandi og setur fram gagnrýni sína þar sem hún varpar femínísku ljósi á málflutning Jordans Petersons.

Takmörkuð þekking á kynjafræði

Unnur segir að Peterson sé sannarlega vel lesinn og klár maður á sínu sviði, þótt ýmis viðhorf og skoðanir hans séu að hennar mati fordómafullar og meiðandi.

„Ég myndi aldrei fara í rökræður við Jordan Peterson um biblíuna eða Nýja testamentið, því hann væri ofjarl minn. En með femínisma að gera: Þegar hann setur fram kynjakerfishugmyndir í nýjustu bókinni sinni, þá er eins og hann hafi bara lesið athugasemdakerfin.”

Unnur heldur áfram og segir sorglegt hvernig hann virðist ekki hafa kynnt sér almennilega femínísk sjónarmið eða kenningar.

„Það er ótrúlega sorglegt að svona klár maður gefi sig ekki að umræðunni um þetta.“

Ekki merkilegt framlag

Unnur segir að flest sem teljast megi innihaldsríkt eða merkilegt í málflutningi hans, sé byggt á eða sé endurtekning á hugmyndum annarra.

„Jordan Peterson blandar saman almennum uppeldisráðum, venjum eins og að búa um rúmið sitt í bland við fordóma, kvenhatur, líkams- og hin/kynseginhatur. Hann er hættulegstur þeim sem eru leitandi og þeim sem eru hræddir við breytingar. Að það sé hljómgrunnur fyrir hann hér er mikið áhyggjuefni,“ sagði hún á Twitter.

Í spjalli við Þorstein, umsjónarmanns hlaðvarpsins Karlmennskan, segist Unnur samt skilja þá sem heillist af honum.

„Ég held að fólk heillist af því að hann vill málfrelsi og tjáningarfrelsi, hann talar gegn rétttrúnaði, heldur fast í gildi fjölskyldunnar, er íhaldssamur, hægrisinnaður og anti-trans [...] Ef þú ert frjálshyggjukapítalisti þá er mjög auðvelt að heillast af honum.“

Hægt er að hlusta á hlaðvarpsþáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál