Má bjóða þér að kyssa kút?

Barbieland var frumsýnd á árinu en stuttu síðar ákvað mesta …
Barbieland var frumsýnd á árinu en stuttu síðar ákvað mesta gella allra tíma, Pamela Anderson, að hætta að mála sig. Samsett mynd

Stuttu eftir að Barbieland var frumsýnd ákvað Pamela Anderson, ein mesta skvísa allra tíma, að leggja snyrtidótið sitt á hilluna. Eftir áralanga þrautagöngu í átt að fullkomnun komst Anderson að því að ófullkomleikinn væri kannski bara bestur. Á sama tíma létu íslenskar konur stækka varirnar hjá lýtalæknum og í skúmaskotum úthverfanna.

Öfgar einkenndu árið í glansheiminum sem er fullur af þversögnum – líkt og samfélög heimsins. Fólk lagði mikið á sig til þess að fá hina fullkomnu ásjónu í fegurðarstaðli sem er ættaður frá Barbieframleiðandanum Mattel. Útlitsdýrkunin er atvinnuskapandi fyrir lýtalækna en hefur líka leitt af sér nýtt afbrigði af undirheimaatvinnustarfsemi þar sem ómenntað fólk sprautar fylliefnum í andlit fólks sem er oft og tíðum ekki komið með fullmótaðan framheila. Ekki er um einangrað tilfelli að ræða heldur fjölmörg. Á árinu kom stúlka nokkur heim eftir erfiðan skóladag. Hún var öll fjólublá fyrir ofan efri vörina og þegar móðir hennar spurði hvað hefði komið fyrir svaraði stúlkan á innsoginu: „Ekkert.“

Auðvitað kom „ekkert“ fyrir þannig séð. Marið jafnaði sig og varirnar urðu eins og á flestum ungum konum í dag. Svolítið kyssilegar og vísuðu upp með léttum andasvip. Varir með fyllingarefnum eru lifandi dæmi um tískustraum sem einkenndi árið í ár ásamt þykkum og myndarlegum augabrúnum, síðu, flaksandi og liðuðu hári og löngum gelnöglum (helst með munstri). Fólk sem fékk sér ekki í varirnar á árinu var svolítið eins og fólkið sem keypti sér ekki flatskjá fyrir hrun. Alveg úti á túni.

Maður nokkur um fimmtugt lýsti varafyllingum eiginkonu sinnar með töfrandi hætti þegar hann sagði að upplifunin væri svolítið eins og að kyssa kút. Kútur er blásinn upp með lofti á meðan varir eru blásnar upp með fyllingarefni. Honum fannst upplifunin óspennandi og gat ekki beðið eftir því að þessi hryllingur myndi renna úr vörunum næstu sex mánuði eða svo. Eiginkonan benti manninum á að hún myndi aldrei þora aftur því sársaukinn, sem fylgdi sprautun fyllingarefna í einn viðkvæmasta líkamspartinn, væri um það bil verri en að fæða 16 marka krakka án deyfingar.

Auðvitað er freistandi að verða eins og Kenner-systurnar í framan án þess að þurfa að nota TikTok-bjútífilterinn sem gerði allt vitlaust á árinu. TikTok blés út á árinu og fólk virtist ekki vera með rennandi blóð í æðum nema vera með slíkan reikning. Það var heldur ekki lifandi nema það væri búið að taka upp dansmyndband og líkja eftir Beckham-hjónunum þar sem þau nudduðu sér upp við hvort annað undir rómantískasta lagi allra tíma, Islands in the Stream. Á meðan við búum til gumsuleg dansmyndbönd í skítuga eldhúsinu okkar skellihlæja Kínverjar sem bjuggu TikTok til. Kínverjar vilja yfirtaka heiminn og þar sem stríð eru svo „last season“ ákváðu þeir að búa til forrit sem eyðileggur heilann í fólki og það fer að haga sér eins og það sé í lífslokameðferð.

Pamela Anderson mætti óförðuð á tískuvikuna í París á dögunum. …
Pamela Anderson mætti óförðuð á tískuvikuna í París á dögunum. Myndin hægra megin var tekin 2005. Samsett mynd

Uppfærð útgáfa af Pamelu Anderson

Á sama tíma og fólk fór í bílskúr í úthverfi til að láta hugsanleg mansalsfórnarlömb sprauta fyllingarefnum í varnirnar á sér ákvað Pamela Anderson, stjarnan úr Strandvörðum, að leggja snyrtidót sitt (og hugsanlega fylliefni og bótox) á hilluna. Hún komst í fréttir á árinu þegar hún mætti óförðuð á tískusýningu síðasta haust. Þessi gamla Strandvarðastjarna kastaði inn handklæðinu eftir að förðunarmeistari hennar lést.

Förðunarmeistarinn hafði unnið gott ævistarf þegar hann pródúseraði útlit Anderson sem varð svo eftirsóknarvert að til varð alheimshreyfing sem vildi líta út eins og lifandi Barbie-dúkka. Þessi alheimshreyfing lærði að setja í sig svokallaðan „druslusnúð“ sem var hárgreiðsla sem naut vinsælda og plokkaði vandlega á sér augabrúnirnar þannig að eftir stóð þunn rönd. Ekki er vitað hvort förðunarleysi Anderson hefur eitthvað með kvikmyndina Barbieland að gera en það er ískyggilega grunsamlegt að hún hafi kastað inn handklæðinu stuttu eftir að myndin var frumsýnd.

Leikkonan Margot Robbie fer með hlutverk Barbie í kvikmyndinni.
Leikkonan Margot Robbie fer með hlutverk Barbie í kvikmyndinni. AFP/Justin Tallis

Í kvikmyndinni lifir Barbie í sínum fullkomna heimi þar sem fjör og fegurð ráða för. Barbie klæðir sig í falleg föt og djammar með vinkonum sínum. Þær eru svo uppteknar hver af annarri að Ken greyið, kærastinn hennar Barbie, er hálftengslaraskaður vegna áhugaleysis kærustunnar. Fólk sem hefur tekið ástfóstri við Barbie og hennar veröld á einhverjum tímapunkti í lífi sínu veit að elsku tengslaraskaði Ken var eiginlega alltaf óþarfur og hefur ekkert með Barbieland að gera. Það var í raun ekkert sem hann gat gert eða sagt sem breytti leiknum. Ef það munar ekki um þig – þá munar ekki um þig. Þannig að Ken var bara úti í horni nema eitthvert yngra systkini þyrfti endilega að fá vera með í leiknum – þá mátti það leika Ken en bara í korter.

Stjórnendur Mattel ákváðu að fara í gerð Barbieland til þess að reyna að markaðssetja Barbie á nýjan leik og höfða til yngri neytenda. Barbie var hætt að vera stórveldið sem hún var. Sem er kannski ekki skrýtið því ungmenni eru nánast hætt að leika sér. Börn læra það sem fyrir þeim er haft. Þar sem foreldrar þeirra eru annaðhvort í veikindaleyfi vegna kulnunar eða láta eins og þau séu á jóga nidra-námskeiði, í hjónarúminu, þar sem símar eru leyfðir, dettur þeim alls ekki í hug að fara inn í stofu og breyta Eames-stólnum í risa Barbie-tjald sem snýst.

Á árinu komst það í fréttir að 11 ára stelpur væru komnar með flóknari húðrútínu en Jenner-systurnar. Vitneskja hinna 11 ára kom beint af TikTok sem er greinilega ekki bara að reyna að eyðileggja heilann í Vesturlandabúum heldur líka húðina á þeim. Það gæti verið ennþá meira áhyggjuefni en fólk gerir sér grein fyrir.

Margot Robbie og Ryan Gosling fara með hlutverk Barbie og …
Margot Robbie og Ryan Gosling fara með hlutverk Barbie og Ken í kvikmyndinni Barbie. Samsett mynd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál