Börðumst vel fyrir stiginu

Hjörtur Logi Valgarðsson og Hólmar Örn Rúnarsson í baráttu um …
Hjörtur Logi Valgarðsson og Hólmar Örn Rúnarsson í baráttu um boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Valli

Keflvíkingurinn Hólmar Örn Rúnarsson kunni greinilega var við sig á gamla heimavellinum þegar FH og Keflavík skildu jöfn 2:2 í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Hólmar var mjög drjúgur á miðjunni í baráttuglöðu liði Keflavíkur sem nái tvívegis forystunni í leiknum.

„Við erum sáttir við þessa niðurstöðu. Við börðumst vel fyrir stiginu og getum örugglega byggt eitthvað ofan á þessa frammistöðu. Þetta var erfitt í seinni hálfleiknum. Við bökkuðum kannski full mikið en mér fannst við verjast vel. Við fengum nokkur fín upphlaup í fyrri hálfleiknum en í seinni hálfleik hefðum við þurft að geta haldið boltanum aðeins meira innan liðsins og ógnað marki þeirra,“ sagði Hólmar Örn við mbl.is eftir leikinn.

„Nú verðum við bara að taka þetta með okkur í næsta leik og ná tveimur leikjum í röð þar sem við fáum punkta. Ég var mjög ánægður með kraftinn og baráttuna hjá okkur og vonandi fer fyrsti sigurinn að detta í hús hjá okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert