Sáttur með stigið á fyrsta grasvellinum

Brynjar Björn Gunnarsson og Viktor Bjarki Arnarsson.
Brynjar Björn Gunnarsson og Viktor Bjarki Arnarsson. Ljósmynd/HK

„Ég er bara nokkuð sáttur með stigið, erfiður völlur að koma á og fyrsti leikur okkar á grasi í sumar. Bara gott að fá stig.“ sagði Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK eftir 2:2 jafntefli gegn Þór í 6.umferð Inkassodeildar karla í dag.

„Spilamennska okkar hefur verið betri, ég get alveg viðurkennt það. Hvort sem það var grasið eða eitthvað sem vafðist fyrir okkur í dag.  Við náðum mjög litlu spili á milli okkar í dag og ekkert meira um það að segja í sjálfum sér. Þetta var ekki alveg okkar dagur í dag.“

Viktor Bjarki Arnarsson og Kári Pétursson fóru báðir meiddir af velli í fyrri hálfleik. Aðspurður um þessi meiðsli sagði Brynjar:

„Viktor var pínu tæpur fyrir leik. Við tókum smá séns, hann byrjaði leikinn og við vorum undirbúnir undir það að hann færi útaf snemma. Kári fær smá slink á hnéð og við fyrstu sín er ekkert alvarlegt. Vonandi ekki meira en tveir dagar því það er stutt í næsta leik.“

Eftir sex umferðir eru HK-ingar í öðru sæti deildarinnar með 14 stig. Brynjar er nokkuð sáttur með stigasöfnun sinna manna það sem af er sumri.

„Já ég er nokkuð sáttur við það. Hefðum mögulega getað vera með tveimur stigum meira en á heildina séð er þetta mjög gott. Góð stigasöfnum í fyrstu leikjunum og við höldum bara áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert