Auðvitað missir að vera ekki með Söru

Gunnhildur Yrsa með Dominika Conc í bakinu í kvöld.
Gunnhildur Yrsa með Dominika Conc í bakinu í kvöld. mbl.is/Eggert

„Þetta var erfið fæðing, við vissum að það yrði erfitt að brjóta þær niður. Þær hafa tekið svakalegum framförum og eru með gott lið. Á meðan við vorum þolinmóðar vissum við að við myndum skora," sagði Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, miðjumaður íslenska landsliðsins í fótbolta, eftir 2:0-sigur á Slóveníu í dag. 

Ísland mætti Slóveníu á útivelli fyrir tveimur mánuðum síðan og segir Gunnhildur liðið hafa bætt sig mikið á skömmum tíma. 

„Þær eru mjög skipulagðar, ákveðnar og góðar í skyndisóknum svo það er mjög erfitt að spila á móti þeim. Við þurfum að vera 100% til að ná í þrjú stig á móti þeim. Við vildum halda áfram að spila okkar leik og ekki stressa okkur á því að við værum ekki búnar að skora."

Selma Sól Magnúsdóttir lék við hliðina á Gunnhildi í stað Söru Bjarkar Gunnarsdóttur sem er meidd. 

„Auðvitað er það missir að vera ekki með Söru, hún er frábær leikmaður og ég elska að spila með henni á miðjunni. Við erum hins vegar með sterkan og stóran hóp svo næsti maður kemur inn fyrir hana. Mér fannst Selma stíga upp og standa sig vel."

Næsti leikur Íslands er á móti Þýskalandi í byrjun september og með góðum úrslitum fer íslenska liðið langt með að tryggja sér sæti í lokakeppni HM í Frakklandi á næsta ári. 

„Það er næsti leikur og við vitum að það er úrslitaleikur til að komast á HM. Hann er mjög mikilvægur en við verðum tilbúnar í það verkefni," sagði Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert