Markmiðið að enda árið á sigri

Erik Hamrén, þjálfari íslenska landsliðsins, ásamt Frey Alexanderssyni, aðstoðarþjálfara liðsins.
Erik Hamrén, þjálfari íslenska landsliðsins, ásamt Frey Alexanderssyni, aðstoðarþjálfara liðsins. mbl.is/Hari

Erik Hamrén, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, vonast til þess að krækja í sigur áður en árið er á enda. Íslenska landsliðið leikur tvo leiki á næstu dögum, fyrst gegn Belgum í Brussel í 2. riðli Þjóðadeildar UEFA þann 15. nóvember og svo vináttuleik gegn Katar í Eupen í Belgíu 19. nóvember en þetta eru síðustu leikir liðsins á árinu 2018.

„Sigur gegn Belgíu myndi gera mikið fyrir okkur og ef okkur tekst að vinna þann leik eigum við ennþá möguleika á því að enda í efstu tíu sætunum í Þjóðadeildinni. Það verður mjög erfitt, enda Belgar með eitt besta landslið heims í dag, en það er allt hægt í fótbolta. Á meðan möguleikinn er til staðar höldum við áfram,“ sagði Hamrén á blaðamannafundi í Laugardalnum í dag.

„Við viljum vinna leik á þessu ári og núna fáum við tækifæri til þess. Frá því að ég tók við liðinu hef ég séð framfarir á liðinu og ég er sáttur með spilamennsku liðsins í síðustu tveimur leikjum þrátt fyrir að úrslitin hafi ekki dottið með okkur. Núna þurfum við að breyta þessum úrslitum í sigra og koma okkur aftur á sigurbraut, það er það mikilvægasta í þessu öllu saman,“ sagði Hamrén ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert