Skiptir ekki öllu hvort það séu áhorfendur

Úr leik Víkings og ÍA í sumar.
Úr leik Víkings og ÍA í sumar. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Víðir Reyn­is­son yf­ir­lög­regluþjónn svaraði spurningum varðandi frestun íþróttaviðburða á landinu vegna hertra aðgerða yfirvalda til að sporna við útbreiðslu kórónuveirunnar. Hann sagði að yfirvöld myndu funda með Knattspyrnusambandi Íslands á morgun. 

„Við fengum ítarlegan spurningalista frá knattspyrnusambandinu þar sem þeir eru að skoða alla möguleika á því að byrja Íslandsmótin aftur og hefja æfingar aftur hjá félögunum,“ sagði Víðir Reynisson á fundi almannavarna í dag.

„Staðan er bara mjög óljós og það er erfitt að svara mörgum af þeim spurningum sem þar eru settar fram. Á meðan við erum að meta stöðuna frá degi til dags er erfitt að svara langt fram í tímann. Við hittum forsvarsmenn KSÍ á morgun og getum þá vonandi svarað einhverjum spurningum. Það er þó ekki víst að svörin verði öll eins og þau vilja.“

Aðspurður hvort til greina komi að leyfa fótboltaleiki fyrir luktum dyrum sagði Víðir að áhorfendur væru ekki helsta vandamálið. „Þetta snýr ekki endilega að því, það er hundrað manna samkomubann og leikir gætu farið fram ef það væri eina takmarkið. Það er tveggja metra reglan, þessi nánd og smitvarnir sem eru miklu meira hamlandi í þessu en hvort það geti verið áhorfendur eða ekki.“

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert