Fekir farinn aftur til Frakklands

Nabil Fekir var frábær með Lyon á síðustu leiktíð þar …
Nabil Fekir var frábær með Lyon á síðustu leiktíð þar sem hann skoraði 18 mörk og lagði upp önnur 8 í frönsku 1. deildinni. AFP

Nabil Fekir, sóknarmaður franska knattspyrnufélagsins Lyon, er snúinn aftur til heimalands síns en hann átti að gangast undir læknisskoðun hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Liverpool í vikunni. Fekir hefur verið sterklega orðaður við Liverpool undanfarnar vikur og var talið næsta víst að hann myndi semja við enska félagið áður en HM í Rússlandi hefst.

Canal+ greinir hins vegar frá því að Liverpool og Lyon deili nú um kaupverðið á leikmanninum en franska félagið vill fá 70 milljónir punda fyrir hann. Liverpool er hins vegar einungis tilbúið að borga 50 milljónir punda fyrir Fekir og því hafa samningaviðræður siglt í strand, að svo stöddu.

Fekir er í franska landsliðshópnum sem fer til Rússlands en hann fékk frí frá æfingum til þess að klára sín mál. Það verður að teljast ólíklegt að Liverpool nái að klára kaupin á leikmanninum fyrir HM en Didier Deschamps mun ekki hleypa leikmanninum í burtu á nýjan leik, þegar svona stutt er í mót.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert