Hazard til vandræða hjá Chelsea

Maurizio Sarri var ekki ánægður með varnarvinnu Eden Hazard í …
Maurizio Sarri var ekki ánægður með varnarvinnu Eden Hazard í vetur. AFP

Maurizio Sarri, fyrrverandi knattspyrnustjóri Chelsea og núverandi stjóri Juventus á Ítalíu, segir að sóknarmaðurinn Eden Hazard hafi ollið Chelsea-liðinu ákveðnum vandræðum með spilamennsku sinni í ensku úrvalsdeildinni í vetur.

Hazard gekk til liðs við Real Madrid á dögunum en félagskiptin höfðu legið lengi í loftinu. Hazard var besti leikmaður Chelsea á síðustu leiktíð en Sarri var ekki ánægður með varnarleik kappans í vetur. 

„Ég er stjóri sem vill spila leikkerfið 4-3-3 en ég spilaði öðru vísi útfærslu hjá Chelsea en hjá Napoli,“ sagði Sarri sem stýrði Napoli í þrjú ár áður en hann tók við Chelsea sumarið 2018. „Hazard er leikmaður sem getur breytt leikjum upp á eigin spýtur en hann olli okkur vandræðum líka.“

„Hann var ekki duglegur að sinna varnarvinnunni og við þurftum að gera ákveðnar ráðstafanir vegna þessa,“ sagði Sarri ennfremur en hann náði  ágætis árangri með Chelsea sem endaði í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar síðasta vor og þá fór liðið alla leið í Evrópudeildinni og lagði Arsenal 4:1- í úrslitaleik í Bakú.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert