Eriksen ætlar til Madríd í janúar

Christian Eriksen
Christian Eriksen AFP

Christian Eriksen er ekki búinn að gefa drauminn um að spila fyrir Real Madrid upp á bátinn en danski knattspyrnumaðurinn var orðaður við félagaskipti til spænska stórliðsins frá Tottenham í allt sumar.

Fjölmiðlar höfðu vart undan að skrifa um fyrirhuguð skipti Eriksen til Madrid en hann sagðist sjálfur vera leita að nýrri áskorun eftir sex ár í ensku úrvalsdeildinni. Allt kom þó fyrir ekki, félagaskiptaglugganum var lokað 2. september síðastliðinn og Daninn er enn leikmaður Tottenham.

Spænski fjölmiðillinn Marca, sem færir gjarnan fregnir af fyrirhuguðum kaupum Madridliðsins, segir hins vegar að Eriksen vilji enn ólmur færa sig um set og vonist til að félagið vilji enn kaupa hann í janúar.

Miðjumaðurinn var í byrjunarliði Tottenham í grannaslagnum gegn Arsenal fyrir landsleikjahléið og skoraði þar mark í 2:2-jafntefli. Þá var hann aftur í liðinu í gær er Tottenham lagði Crystal Palace 4:0.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert